Lánasjóður íslenskra námsmanna

Þriðjudaginn 09. júní 2009, kl. 15:28:28 (1137)


137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

82. mál
[15:28]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður veit ósköp vel sagði ég í aðdraganda kosninga að ég væri á móti Evrópusambandinu en teldi að þetta væri ákvörðun sem þjóðin ætti að taka lýðræðislega. Eins og hv. þingmaður veit er hann í miklum metum hjá mér (BJJ: Sömuleiðis.) en ég held að þetta hafi verið nokkur útúrsnúningur á þeirri stefnu sem haldið var fram fyrir síðustu kosningar, a.m.k. úr munni þeirrar sem hér stendur.

Hvað varðar útleggingar á orðum finnska utanríkisráðherrans ætla ég ekki að leggja mat á þau. Ég set þetta ekki í það samhengi en ég árétta að það þingmál sem þingmaðurinn nefndi, sem ég reyndar mælti ekki fyrir á sínum tíma heldur var hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson þar 1. flutningsmaður, snerist um að veittar yrðu fjárheimildir fyrir Landsbankann til að höfða mál en því miður rann sá frestur út í janúar. Ég lít ekki svo á að ég hafi orðið tvísaga í því máli. Þvert á móti minni ég á að í stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstjórnar sem tók við í febrúar og þeirrar ríkisstjórnar sem nú tók við er kveðið á um að ljúka þessum samningum um Icesave-málið en ekki út af Evrópusambandinu, heldur einfaldlega út af því að þetta er vissulega mjög erfið alþjóðleg deila sem við Íslendingar eigum í og þar, eins og ég ítreka enn og aftur, eru engar einfaldar lausnir. Það að leitað sé eftir samningum þarf engum að koma á óvart sem lesið hefur samstarfsyfirlýsingu fyrri stjórnar og þeirrar sem nú er. Hin réttarfarslega staða er mjög flókin eftir að frestur Landsbankans til að fara í mál út af beitingu hryðjuverkalaga rann út. Nú segi ég þetta auðvitað sem leikmaður, en út frá þeim lögfræðingum sem hafa farið með málið og greint það virðist mér að hún sé mjög flókin.