Lánasjóður íslenskra námsmanna

Þriðjudaginn 09. júní 2009, kl. 15:35:05 (1140)


137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

82. mál
[15:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er alveg hárrétt, staða ábyrgðarmanna í samfélaginu er gjörbreytt og það þurfti líka að breyta þeirri stöðu. Um leið er rétt að draga það fram að bankarnir tóku í rauninni að hluta til yfir ábyrgðarmannakerfið að því leyti til að þeir buðu upp á ábyrgðargreiðslu, að ábyrgjast lánin, að ábyrgjast námsmanninn gegn ákveðinni greiðslu. Það er búið að breyta fyrirkomulaginu til hagsbóta fyrir námsmenn. Gott og vel. Það getur verið að þetta frumvarp stuðli að því líka. En ég spyr líka: Þá verður ekki sama svigrúm, er það ekki rétt hjá mér, til þess m.a. að hækka framfærslugrunninn? Hvernig ætlar ríkissjóður að koma til móts við mjög líklega vaxandi gat sem verður þá á rekstri sjóðsins? Og mér fannst ekki gott að heyra það í máli hæstv. menntamálaráðherra að þetta muni ekki hafa áhrif á stöðu ríkissjóðs fyrr en 2012. Það er einmitt árið sem við ætlum að fara að rétta út kútnum. Eru menn strax byrjaðir að gefa tékka út á árið 2012?

Ég vara við því að koma fram með svona velviljuð mál — það vilja allir styðja þetta — þegar við sjáum ekki heildarmyndina fyrir okkur. Við í þessum sal erum enn að bíða eftir því hvaða tillögur ríkisstjórnin kemur með í ríkisfjármálum.

Þess vegna finnst mér, frú forseti, með fullri virðingu fyrir hæstv. menntamálaráðherra, að það hefði verið betra að bíða með þetta til að geta áttað sig á því og lagt það fyrir sér hvar þarfir námsmanna eru mestar. Það er ekki hægt að mæta öllum kröfum. Það er hluti af hinu pólitíska lífi okkar stjórnmálamanna í dag að við getum ekki komið til móts við alla. Erum við þá að segja: Nei, við getum ekki komið til móts við aðrar þarfir námsmanna af því að við ætlum að koma þessu máli í gegn? Ég hefði viljað sjá heildarmyndina og ég hefði óskað eftir því að hæstv. menntamálaráðherra hefði tekið undir með mér hvað það efni varðar.