Samningsveð

Þriðjudaginn 09. júní 2009, kl. 16:06:35 (1149)


137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

samningsveð.

39. mál
[16:06]
Horfa

Flm. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir að taka til máls og ræða fyrsta frumvarp mitt á Alþingi. Ég held að við getum öll verið sammála um að þetta frumvarp muni gera útlánastarfsemi vandaðri en orsök bankahrunsins er m.a. rakin til þess hversu útlánaglaðir bankarnir voru á tímum útrásarinnar.

Hvað varðar landsbyggðina vildu einkabankarnir á síðustu árum ekki lána til fasteignakaupa á landsbyggðinni þannig að það var fyrst og fremst Íbúðalánasjóður sem lánaði fólki fyrir eignunum sem það keypti og voru staðsettar úti á landi. Ég tel að Íbúðalánasjóður muni alls ekki hætta þeirri starfsemi þrátt fyrir að þetta frumvarp verði samþykkt sem lög.

Hvað varðar eignarréttinn sem verið er að ganga á er hann mjög vel varinn hér á landi og jafnvel betur varinn en t.d. í Bandaríkjunum, þaðan sem fyrirmyndin að þessu frumvarpi kemur. Þar er, eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir gat um, hægt að taka þá ákvörðun þegar eignin er orðin skuldsettari en verðmæti hennar að skila inn lyklinum og hefja síðan nýtt líf fimm árum seinna sem mun m.a. þá felast í að kaupa nýja eign. Hér á landi geta skuldarar aftur á móti átt á hættu að kröfuhafar geri kröfu um endurgreiðslu skuldar í 15 ár. Það er mjög langur tími fyrir ungt fólk og ekki síst fólk sem ákveðið hefur að byrja nýtt líf og flytja úr landi tímabundið og koma síðan aftur heim þegar betur árar. Fólk sem flyst úr landi mun frekar koma aftur heim eftir að þessi hörmungatími er liðinn ef kröfuhafar elta það ekki úr landi.

Það má líka geta þess að sú staða sem skuldarar eru í í dag hefur orðið til þess að margir þeirra hafa ákveðið að láta sig einfaldlega hverfa úr opinberu lífi til þess að losna undan kröfuhöfum sem eru að reyna að ná eignum upp í skuldir. Þetta frumvarp mun draga úr því að fólk neyðist til þess að fara í felur þar til þetta 15 ára tímabil er liðið.