Bankasýsla ríkisins

Mánudaginn 22. júní 2009, kl. 16:33:58 (1855)


137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[16:33]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér með fyrir frumvarpi til laga um Bankasýslu ríkisins. Þetta er 124. mál á þskj. 166.

Í ljósi þeirra atburða sem hér hafa orðið á fjármálamarkaði er nú svo komið að ríkið á eignarhluti í eða að fullu og öllu nokkur stærstu fjármálafyrirtæki landsins. Ríkið þarf því að vera trúverðugur eigandi þessara fjármálafyrirtækja og hlutverk þess að vera hafið yfir vafa um pólitísk afskipti af daglegum ákvörðunum fyrirtækjanna. Því er mikilvægt að ríkið komi fram sem upplýstur og stefnumarkandi eigandi þessara fyrirtækja og ræki eigandahlutverkið af kostgæfni. Endurskipulagning fjármálakerfisins verður krefjandi og því er mikilvægt að ríkið setji skilyrði fyrir framlagi sínu sem miði að því að byggja upp heilbrigt og öflugt fjármálakerfi og fylgist með árangri þess með markvissum hætti.

Með það í huga hversu stórt hlutverk fjármálastofnanir leika í nútímahagkerfi, og vegna þess að ríkið er stærsti eigandi fyrirtækja á þessum markaði eins og nú er komið á nýjan leik, er afar mikilvægt að ríkissjóður hafi skýra stefnu sem eigandi umræddra fyrirtækja. Fjármálaráðuneytið í samvinnu við viðskiptaráðuneytið vinnur nú að mótun slíkrar eigendastefnu sem tekur á starfsháttum fjármálastofnana og því hvernig ríkið sem eigandi í þeim vill sjá þær þróast, þannig að þær geti, hver fyrir sig og sem heild, styrkt og bætt íslenskt fjármálakerfi. Þetta á sérstaklega við á næstu missirum þegar fjármálakerfið og efnahagslífið þarf að komast í gegnum mikla aðsteðjandi erfiðleika. Í þessu samhengi skiptir miklu að ríkið sem eigandi svo stórs hlutfalls fjármálafyrirtækja landsins hagi eigendaákvörðunum sínum með trúverðugum hætti þannig að ná megi fram eðlilegum viðskiptaháttum og heilbrigðri samkeppni á fjármálamarkaði þrátt fyrir að umrædd fjármálafyrirtæki séu í sömu eign.

Í ljósi þessa er í frumvarpinu lagt til að sérstakri stofnun, Bankasýslu ríkisins, verði falið að fara með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjunum meðan á uppbyggingu og endurreisn fjármálakerfisins stendur. Stofnunin verður fyrst og fremst rekin á faglegum forsendum með það að markmiði að byggja upp trúverðugt og traust fjármálakerfi á Íslandi til framtíðar og stuðla þannig að virkri og eðlilegri samkeppni á þessum markaði. Slík stofnun lúti sérstakri stjórn, fái rekstrarfé af fjárlögum og starfi á grundvelli eigendastefnu ríkisins.

Hlutverk hennar er að halda utan um eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, setja með samningum fjármálastofnunum í eigu ríkisins viðmið í rekstri, viðmið um arðsemi af eigin fé og viðmið um almennar áherslur varðandi endurskipulagningu fjármálakerfisins. Stofnunin mun jafnframt hafa eftirlit með því að settum markmiðum verði náð. Stofnunin mun koma til með að sjá alfarið um samskipti ríkisins við fjármálafyrirtæki sem ríkið á hluti í og tengjast eigendahlutverki þess þannig að bankastjórnir, stjórnir og stjórnendur fjármálafyrirtækja munu almennt eftir það ekki eiga í beinum samskiptum við fjármálaráðuneytið eða ráðherra. Fjármálastofnanirnar verða þannig reknar á viðskiptalegum forsendum á ábyrgð bankastjórna, stjórna og stjórnenda eins og önnur félög og verða þessir aðilar látnir sæta ábyrgð á rekstrinum líkt og stjórnendur fyrirtækja á markaði.

Starfsmenn stofnunarinnar munu fara með eignarhluti ríkisins og atkvæðarétt á hluthafafundum en sitja ekki sjálfir í stjórnum fjármálafyrirtækja. Sérstök valnefnd, skipuð af stjórn Bankasýslunnar, tilnefnir einstaklinga til setu í stjórnum og bankaráðum fjármálafyrirtækja fyrir hönd ríkisins en þær eru síðan kjörnar á hluthafafundum eins og almennt er hjá hlutafélögum þar sem eigandinn fer með atkvæðarétt í samhengi við hlutafjáreign sína. Hlutverk stjórnarmanna þessara banka og fjármálastofnana er þannig að tryggja framgang eigendastefnu ríkisins og þeirra samninga sem fyrirtækin gera við Bankasýsluna. Almenningi verður gert kleift að koma nöfnum sínum og ferilskrám á framfæri við nefndina og bjóða sig þannig fram til setu í bankaráðum og stjórnum fyrir hönd ríkisins.

Þá er Bankasýslu ríkisins falið að undirbúa og vinna tillögur um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum og gera tillögur til fjármálaráðherra um hvort og hvenær fýsilegt sé að bjóða tiltekna eignarhluti til sölu á almennum markaði. Þegar endurreisn fjármálakerfisins er lokið er gert ráð fyrir því að stofnunin verði lögð niður og umsýslu þeirra eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum sem eftir standa verði hagað með hefðbundnum hætti í gegnum skýra eigendastefnu og eftirlit fjármálaráðuneytis.

Með frumvarpinu er ekki ætlunin að festa í sessi eignarhald ríkisins í fjármálastofnunum heldur bregðast við stöðunni eins og hún er í dag og að framan er lýst. Eins og fyrr segir er um að ræða tímabundið fyrirkomulag vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði og lögð sérstök áhersla á að samkeppni skuli ríkja á þeim markaði, gagnsæi skuli vera í ákvarðanatöku varðandi hlutverk ríkisins sem eiganda og að tryggja skuli virka upplýsingamiðlun til almennings. Með stofnun Bankasýslunnar er ætlunin að auka trúverðugleika ríkisins sem faglegs eiganda fjármálafyrirtækja og hámarka þannig nýtingu þeirra fjármuna sem ríkissjóður kemur til með að leggja þeim til.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þeirri umræðu sem hér fer fram. Málið varðar vissulega einnig verksvið efnahags- og skattanefndar en nefndirnar geta þá eftir atvikum átt samstarf um málið eða sú fyrri fengið álit frá hinni síðari.