Bankasýsla ríkisins

Mánudaginn 22. júní 2009, kl. 16:42:16 (1857)


137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[16:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér dettur alveg eins í hug Milan Kundera eins og Franz Kafka þegar þetta er rætt.

Hv. þingmaður telur að hér séu sömu annmarkar á frumvarpi og voru á frumvarpi um eignaumsýslufélag, sem reyndar þingnefnd er búin að afgreiða frá sér og gott ef það er ekki orðið að lögum, alla vega langleiðina, að því er ég best veit óbreytt hvað þetta varðar — að fjármálaráðherra skipar þá stjórn.

Það má spyrja hv. þingmann á móti: Er hann þá að mæla með því að ástandið verði óbreytt? Hvernig hefur þetta verið? Hvað fékk ég í arf í fjármálaráðuneytinu? Jú, ég fékk þessa þrjá banka sem urðu til í haust og eru inni á borði fjármálaráðherra og fyrir dyrum stendur að ríkið setji sömuleiðis eignarhluti inn í velflesta sparisjóði í landinu. Það sem hér er verið að gera er að færa þessa hluti út úr ráðuneytinu yfir í sjálfstæða einingu, fjær afskiptum ráðherrans og yfir á faglegan grunn þannig að við hverfum frá því að pólitískur ráðherra skipi í þessar stjórnir.

Hvernig gerðist það í haust er leið? Jú, með því að flokkarnir töluðu sig saman og tilnefndu sína fulltrúa inn í núverandi bankaráð. Vilja menn það áfram? Hér er verið að hverfa frá því fyrirkomulagi yfir á faglegan grunn þar sem ríkar faglegar hæfniskröfur verða lagðar til grundvallar því hverjir fara inn í stjórn fyrirtækisins og þar sem sérstök valnefnd mun með opnum hætti leita eftir tilnefningum og gefa almenningi kost á því að bjóða sig fram til að sitja í stjórnum fjármálafyrirtækjanna.

Ég held að hv. þingmaður hljóti að sjá að það sem hér er verið að reyna að gera er akkúrat að færa málin af hinu pólitíska borði, út úr ráðuneytinu og búa til armslengd á milli stjórnmálanna, framkvæmdarvaldsins og löggjafans þess vegna, og þeirrar framkvæmdar sem þarna á að fara fram.