Bankasýsla ríkisins

Mánudaginn 22. júní 2009, kl. 16:53:04 (1862)


137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[16:53]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók það fram í máli mínu að ég teldi að það gæti verið alveg eðlilegt að hafa um þetta einhvern strúktúr og því óþarfi fyrir hæstv. ráðherra að gera mér upp skoðanir í því efni. Hins vegar hef ég efasemdir um að nógu langt sé gengið í því að aðskilja fjármálaráðuneytið frá þessari stofnun í þeirri skipun sem þarna er á ferðinni. Ég held að það sé bráðnauðsynlegt að menn velti því fyrir sér hvort svo sé, hvort það sé alveg tryggt að með þessu sé verið að tryggja að pólitíski veruleikinn sé ekki of nálægt þessari stofnun. Hæstv. fjármálaráðherra veit að þetta er eitt af þeim atriðum sem eru hvað umdeildust í frumvarpi til laga um eignaumsýslufélag, þetta stendur í mönnum. Mér þætti því ekkert óeðlilegt að hæstv. fjármálaráðherra hefði velt því fyrir sér í tengslum við þetta mál hvort það sé nógu langt gengið. Það er alveg hægt að hugsa sér að skipunin sé með þeim hætti að hæstv. fjármálaráðherra sé örlítið fjær. Mér finnst þetta bara gild sjónarmið sem ég geri ráð fyrir að verði tekið til vandlegrar skoðunar í viðskiptanefnd en eftir því sem mér skilst fer málið þangað.

Mig langar aðeins að víkja að öðru í tengslum við þetta mál og það er að fram undan er mikill niðurskurður í ríkisrekstri og gríðarlegar aðhaldsaðgerðir og hafandi í huga þá hagsmuni sem eru í ríkisbönkunum íslensku og í öllu íslensku atvinnulífi þá hljótum við líka að þurfa að líta til þess hvað það kostar að setja á fót stofnun eftir stofnun til að halda utan um þetta mál. Í umsögn fjárlagaskrifstofu um frumvarpið kemur fram að áætlaður kostnaður á ári sé 70–90 millj. kr. Heldur hæstv. fjármálaráðherra að þessir peningar dugi þegar litið er til þess starfs sem þessar stofnanir hafa með höndum? Heldur hæstv. ráðherra að þau áform að þarna séu örfáir starfsmenn sem hægt er að telja á fingrum annarrar handar muni duga til að halda utan um þetta mál? Hvaða sjónarmið eru uppi af hálfu hæstv. fjármálaráðherra um það ef kostnaður rýkur upp úr öllu valdi?