Bankasýsla ríkisins

Mánudaginn 22. júní 2009, kl. 17:17:26 (1870)


137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[17:17]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að hryggja hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur með því að ég hef ekki sérþekkingu á hlutafélögum og lögum um opinber hlutafélög en vil benda á að flokksbróðir hennar, hv. þm. Pétur Blöndal, bendir ítrekað á það að hann telji að fjárhagsleg ábyrgð ríkisins sé engu minni þegar um opinber hlutafélög er að ræða. Þó hef ég heyrt skiptar skoðanir um þetta og tel að út frá þessum ólíku sjónarmiðum um ábyrgð ríkisins varðandi opinber hlutafélög þá eigi að ræða það í nefndinni sérstaklega hvernig því sé háttað og þá má jafnframt ræða, ef hin fjárhagslega ábyrgð er takmarkaðri, hvort það sé heppilegt fyrir bankakerfið að heyra undir slíka stofnun eða getur það veikt það til lengri tíma í þessu umróti sem nú er?

Virðulegi forseti. Þá langar mig að koma inn á það að ég held að hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir hafi misskilið orð mín. Ég tel ekki að til lengri tíma verði stofnun að halda utan um fyrirtæki sem ríkið hyggst eiga til lengri tíma. Þessi stofnun er sett á laggirnar til skamms tíma. Það segir í frumvarpinu að það skuli vera til fimm ára. Ef til umræðu kæmi að setja fleiri fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins þar undir þá þyrfti að sjálfsögðu að endurskoða það með hvaða hætti það ætti að vera.