Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 12:04:59 (2381)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:04]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi gögn þá leyfi ég mér að fullyrða að aldrei nokkurn tíma hafa verið gerð aðgengileg og opinber gögn í flóknum samningum af þessu tagi neitt í líkingu við það sem hér er gert. Þetta hefur verið opnað með alveg sögulega óvenjulegum hætti, leyfi ég mér að fullyrða. Þar á meðal hlutir sem almennt eru ekki aðgengilegir neinum fyrr en eftir 50 ár, þegar aðgangur kann að opnast að þeim í Þjóðskjalasafni Íslands, gögn sem núna liggja opin í möppum þingmanna. Persónulegir tölvupóstar og trúnaðarbréf, minnisblöð embættismanna á fundum og aðrir slíkir hlutir, mér er ekki kunnugt um að það hafi nokkurn tíma áður í málum verið gert aðgengilegt með þessum hætti og ég tel því að stjórnvöld hafi gert vel í því, eins vel og kostur er.

Varðandi lánskjörin er það einfaldlega þannig að ef við berum þau t.d. saman við kjörin á MoU-inu frá því í október, hvernig varð það til? (Gripið fram í.) Það var áætlaður lántökukostnaður Hollendinga að viðbættu 250 punkta vaxtaálagi sem var vaxtaálagið á Ísland löngu fyrir bankahrunið.