Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 12:06:16 (2382)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:06]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var mjög athyglisverð ræða hjá hæstv. fjármálaráðherra og af því sést hvernig hann gekk í skrokk á samstarfsflokknum en ég ætla ekki að hafa áhyggjur af því.

Það vakti athygli mína í þessari yfirgripsmiklu ræðu hverju hæstv. fjármálaráðherra, sá aðili sem gætir hagsmuna okkar, sleppti. Hann ræddi ekkert um galla regluverks innlánstrygginga sem gerir ekki ráð fyrir katastrófu eins og varð. Hann talaði ekkert um samningsviðmiðin sem við náðum fram sem gerðu ráð fyrir að efnahagslegra hagsmuna Íslendinga yrði gætt og ekki talaði hann um breytingartillögu vinstri manna um innlánstryggingakerfið sem hefði kostað 400 milljarða kr. í viðbót. Látum það liggja á milli hluta.

Hér kemur hæstv. fjármálaráðherra og segir að við fáum ekki lánafyrirgreiðslu nema gengið sé frá þessum samningi. Hvað eftir annað var þessi hæstv. ráðherra spurður fyrir kosningar af hverju við fengjum ekki lánafyrirgreiðslu. Af hverju upplýsti hann það ekki þá? Og nú bið ég hæstv. ráðherra að gera nokkuð sem hann gerir sjaldan, svara spurningunni.