Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 12:38:03 (2396)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:38]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég las áðan úr áliti meiri hluta utanríkismálanefndar þar sem það var alveg skýrt í fyrsta lagi að krafa af hálfu þingsins væri að ríkt tillit yrði tekið til þeirra óvenjulegu aðstæðna sem væru komnar upp á Íslandi í samningunum. Það hefur ekki verið gert og það er mitt mat. Menn geta verið ósammála því mati en það er mitt mat, það er langt frá því.

Í öðru lagi kemur skýrt fram í sama nefndaráliti að þegar kæmi til þess að afla fjárheimildanna kæmi málið til umræðu á þinginu. Tillaga hv. þm. Péturs Blöndals í þessu efni var að því leytinu til óþörf.

Þetta er líka sami þingmaðurinn — fyrst að því er spurt — og sat í þingflokki sjálfstæðismanna þar sem engin ákvörðun var tekin um eitt einasta skref í þessu máli án þess að þingflokkurinn væri um það einhuga. Það var af þeirri ástæðu og vegna þess að það voru mínir ráðherrar sem sátu í ríkisstjórninni (Forseti hringir.) sem ég treysti samninganefndinni.