Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 12:41:50 (2399)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:41]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við höfum oft rætt um svokallað minnisblað sem var gert við Hollendinga um lánakjör á láni sem hæstv. utanríkisráðherra hefur síðan sagt að hann hafi verið á harðahlaupum frá. Það er ekki góður samningur. Þetta var samningur eða minnisblað sem þáverandi hæstv. fjármálaráðherra Árni M. Mathiesen kynnti ásamt fjármálaráðherra Hollendinga á fundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 11. október.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi ráðherra, segir í umræðum í júní, núna fyrir stuttu, að 11. október hafi okkur verið stillt upp við vegg og svo segir hv. þingmaður:

„Þá var allt að því hótað að loka á olíuflutninga og matvælaflutninga til landsins og samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var í algjöru uppnámi.“

Virðulegur forseti. Þetta eru afar alvarlegar ávirðingar sem koma frá fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Íslands á þessum tíma, og á þessum tíma var hv. þm. Bjarni Benediktsson (Forseti hringir.) formaður utanríkismálanefndar. Mér finnst ekki að þessi yfirlýsing geti legið svona nema fá svar við spurningunni: Er þetta sami (Forseti hringir.) skilningur og hv. þm. Bjarni Benediktsson leggur í málið? Hverjir voru að hóta því að senda okkur ekki mat og ekki olíu?