Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 13:56:31 (2421)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:56]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek það fram að ég er að koma þessum athugasemdum á framfæri fyrir þingtíðindin og aðra hv. þingmenn. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gerir það að sjálfsögðu upp við sig hvort hann kýs að trúa því sem fullyrt er og því sem hægt er að sanna með skjölum. Hann má auðvitað halda áfram að halda því fram að það sé rangt en veruleikinn er sá að ég tel að það hafi verið gerð nákvæmlega grein fyrir því hvernig þetta mál er vaxið frá byrjun. Það er þannig vaxið og það er það sem var upplýst í þingnefndum að samningsaðilar okkar, gagnaðilar okkar voru því andvígir að samningurinn yrði gerður opinber, sem og er hefðin í tilvikum sem þessum.

Í öðru lagi voru þeir meira að segja andvígir því í byrjun að vaxtakjörin yrðu upplýst og það upplýstum við en við fengum þá til að fallast á það strax í byrjun, enda urðu þau ljós um leið og samningurinn lá fyrir. Það var síðan unnið að því alveg frá því dagana eftir 5. júní að fá þá til að fallast á að við gætum gert samninginn aðgengilegan. Við sögðum þá strax að við vildum helst gera hann opinberan, a.m.k. óopinbera þýðingu á honum og við öfluðum síðan samþykkis í fyrsta lagi fyrir því að samningurinn fengi að ganga til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til mats á ákvæðum hans þar og í öðru lagi að hann gæti orðið alþingismönnum aðgengilegri. Þetta liggur allt saman fyrir og eru staðreyndir málsins. Svo gerir hv. þingmaður það upp við sig hvort hann telur að umræðan hér verði málefnalegri og uppbyggilegri með því að neita staðreyndum.