Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 13:58:04 (2422)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:58]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er að verða svolítið erfitt fyrir hæstv. fjármálaráðherra sem eltur er af fyrri yfirlýsingum sínum í þessu máli og öðrum, yfirlýsingum sem ganga þvert á allan málflutning hans nú en samt leyfir hann sér enn og endalaust að halda því fram að hann sé samkvæmur sjálfum sér og fari með rétt mál, þrátt fyrir að vera beinlínis staðinn að því að greina þinginu ekki rétt frá.

Ég held að það hljóti að vera að hæstv. ráðherra sé farinn að blekkja, ekki bara þingið og almenning í þessu máli heldur sjálfan sig líka. Þetta er það sem gerist þegar menn eru orðnir rökþrota en búnir að ganga of langt, búnir að grafa sig of langt ofan í holuna, þá lenda þeir í þessari stöðu, eins og pörupiltur sem gerir prakkarastrik og byrjar svo að reyna að færa í stílinn, segja ekki alveg rétt frá til að fela prakkarastrikið en smátt og smátt vindur sagan upp á sig og það verður erfiðara og erfiðara fyrir hann að halda sögunni áfram og vandræðalegra upp á að horfa. Þannig er staðan orðin hjá þessari ríkisstjórn. Hún er komin í þvílíka andstöðu við sjálfa sig og ekki hvað síst hæstv. ráðherra í þessu máli eins og öðrum að það er orðið vandræðalegt að horfa upp á það.