Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 13:59:42 (2423)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:59]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Við Íslendingar, og ekki bara þeir sem sitja í þessum sal, stöndum núna frammi fyrir afleiðingum af því sem úrskeiðis fór á undanförnum árum. Ekki þarf að orðlengja að afleiðingarnar eru um margt slæmar og einn flötur á því er þetta Icesave-mál sem við ræðum í dag. Það er auðvitað bara einn flötur af mörgum.

Það væri hægt að rekja í löngu máli það sem fór úrskeiðis í íslenska efnahagslífinu, og sérstaklega fjármálakerfinu á undanförnum árum, en ég ætla að hlífa mönnum við því nema hvað ekki verður komist hjá því að fjalla aðeins um það hvers konar glannaskapur þessir Icesave-reikningar voru, tvímælalaust mesti glannaskapur Íslandssögunnar. Þetta var íslenskur glannaskapur, þetta var íslenskur banki sem var stjórnað af Íslendingum, í eigu Íslendinga undir íslensku eftirliti sem starfaði samkvæmt íslenskum lögum. Það voru íslenskar eftirlitsstofnanir sem áttu að fylgjast með honum og hvort sem það voru eftirlitsstofnanirnar, stjórnendurnir eða stjórnmálamennirnir sem brugðust liggur alveg fyrir að þeir sem brugðust voru Íslendingar. Það komu engir aðrir við sögu við stjórn þessarar óheillaferðar Landsbankans til Bretlands og Hollands. Og nú súpum við seyðið af því.

Því hefur verið haldið fram að afleiðingarnar séu ríki og þjóð ofviða. Það er sem betur fer ekki þannig. Þetta er auðvitað ekki ánægjuefni, þetta er eiginlega eins fjarri því að vera ánægjulegt og nokkurt mál getur verið, en sem betur fer er það samt ekki óviðráðanlegt, hvorki fyrir ríkissjóð né þjóðina. Reyndar er rétt að hafa í huga í því samhengi að við stöndum ekki bara frammi fyrir afleiðingunum af þessu, heldur einnig afleiðingunum af verulegri neyslu umfram framleiðslu, þ.e. viðskiptahalla á mörgum árum sem skilað hefur sér í verulegri skuldasöfnun, fyrst og fremst reyndar einkaaðila en að einhverju leyti ríkissjóðs, sem við verðum að vinda ofan af á næstu árum, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Icesave-reikningurinn er hluti af því öllu saman en reyndar ekki nema tiltölulega lítill hluti.

Hvað þurfum við að gera til að vinda ofan af þessu? Það er í raun og veru mjög einfalt. Við verðum að hætta að eyða um efni fram og fara að reka þjóðarbúið með talsverðum afgangi. Við þurfum sem sagt að flytja meira út en við flytjum inn til að búa til gjaldeyri til að standa í skilum með allt það sem við höfum safnað upp í skuldum, jafnvel þótt við reynum ekki að greiða skuldir hinna föllnu banka sem ekki eru á ábyrgð þjóðarinnar eða ríkissjóðs. Megnið af þeim skuldum mun falla án þess að Íslendingar greiði nema lítið brot af því. Það verður einfaldlega greitt það sem kemur út úr þrotabúum hinna föllnu banka og ekki meir. Lítill hluti af þeim heildarreikningi fellur á þennan innstæðutryggingarsjóð vegna þess hlutar sem hann gegndi í að tryggja innstæður íslenskra banka í útlöndum.

Hvað þarf þá þjóðarbúið að gera og hvað hefur það til ráðstöfunar? Við getum byrjað á því að skoða útflutningstekjur landsmanna. Þær hafa vaxið örar held ég en flesta grunar á undanförnum árum. Mælt í evrum hafa útflutningstekjur landsmanna vaxið um rúm 8% á ári síðustu 15 árin, en 15 ár eru einmitt líftími Icesave-samningsins. Það gerir u.þ.b. þreföldun. Undir lok þess tímabils sem við erum að skoða, 2007 og 2008, voru tekjurnar vel rúmir 5 milljarðar evra bæði árin. Reyndar er ekki útlit fyrir annað en að þær verði einnig umfram 5 milljarða í ár. Þetta er auðvitað talsvert fé en engu að síður vorum við með viðskiptahalla flest undangengin ár, einfaldlega vegna þess að innflutningurinn var enn meiri. Því er ekki nema von að spurt sé: Er hægt að snúa þessu við þannig að þjóðarbúið afli talsvert meira en það eyðir og geti þar með staðið í skilum, ekki bara með þennan Icesave-reikning heldur alla hina reikningana sem á okkur falla og tengjast fæstir föllnu bönkunum sérstaklega? Svarið er já, og það er augljóslega já. Það sem þarf einfaldlega að gera er að halda útflutningsatvinnuvegunum gangandi. Það er ekkert sem bendir til annars en að það takist, þeir hafa reyndar haldið sjó ansi vel undanfarna mánuði í ljósi þess hve illa árar almennt á alþjóðamörkuðum og útflutningur Íslendinga dregist mun minna saman en t.d. iðnþjóða í Vestur-Evrópu. Ekkert af þeim mannauði og þeim náttúruauðlindum sem búa að baki þessum útflutningi hefur orðið fyrir beinu tjóni vegna samdráttarins. En sóknin er í útflutningnum, vörnin verður í innflutningnum. Við þurfum að draga innflutninginn talsvert saman. Góðu fréttirnar eru þær að við höfum þegar gert það. Það er þegar komið, og allt frá hruni bankakerfisins í fyrrahaust hefur verið þokkalegur afgangur af viðskiptajöfnuði landsmanna. (Gripið fram í.) Það er alveg rétt að fall krónunnar og mikið tap manna hefur dregið úr innflutningi, það er alveg rétt, en skoðum aðeins hver væri eðlilegur innflutningur landsmanna til að standa undir góðum lífskjörum. Og höfum í huga að við höfum rétt ríflega 5 milljarða evra til ráðstöfunar. Það er það sem við búum til úr útflutningstekjunum.

Horfum þá aftur til áranna 2001–2003 áður en allt fór hér á annan endann vegna ofvaxtar í bankakerfinu og reyndar einnig vegna mikillar fjárfestingar í orkufrekum iðnaði. Á þessum ágætu árum — sem ég held að enginn minnist sem neinna sérstakra kreppuára þar sem ekki var hægt að fá erlendar vörur — fluttum við inn vörur, og reyndar hluta af því fjárfestingarvörur, fyrir milli 3 og 4 milljarða evra á ári, u.þ.b. 3,5 milljarða evra að meðaltali. Ef okkur tekst að halda útflutningnum í nokkurn veginn því horfi sem hann hefur verið í ár og undanfarin tvö ár (Gripið fram í.) og innflutningnum í nokkurn veginn því horfi sem hann var þessi ágætu ár 2001–2003 búum við til viðskiptaafgang upp á 1,5 milljarða evra á ári. (Gripið fram í.) (Gripið fram í.) Þetta er einfaldlega það sem við getum gert og það sem við munum gera. Reyndar þurfum við ekki að búa til alveg svona mikinn afgang en þetta væri nokkuð sem við gætum gert án þess að þrengja beltin þannig að það yrði óbærilegt. Árin 2001–2003 voru hér ágæt lífskjör, við vorum með ríkustu þjóðum í heimi. Við vorum í efstu 10 sætum á flestum listum yfir neyslu, framleiðslu og lífsgæði þannig að það er ekki verið að biðja fólk um að hverfa aftur til 19. aldarinnar.

Ef vöxtur verður á útflutningi, jafnvel þótt hann verði ekki nema helmingurinn af því sem hann hefur verið undanfarin ár, mundum við búa til á næstu 15 árum meira en 100 milljarða evra í útflutningstekjum sem væri miklu meira en nóg til að standa undir ekki bara eðlilegum innflutningi, það væri líka nóg til að greiða niður allar erlendar skuldir landsmanna, þar á meðan þennan Icesave-reikning sem er þó reyndar ekki nema lítill hluti heildarinnar. Þegar fólk kemur í ræðustól eða einhvers staðar annars staðar og heldur því fram að Ísland sé á vonarvöl, að við eigum enga von, við eigum ekki fyrir skuldum, við séum gjaldþrota þjóð eða gjaldþrota ríki og erlendir aðilar eigi að gefa okkur upp skuldir okkar vegna þess, fara menn einfaldlega með fleipur. Það er einfaldlega þannig að við erum ein ríkasta þjóð í heimi og það er ekkert útlit fyrir annað en að við verðum það áfram ef við höldum þokkalega á spöðunum.

Ef við semjum um okkar mál, siglum út úr þessum vandamálum í þokkalegri samvinnu við nágrannaþjóðir okkar og reyndar með ágætum stuðningi þeirra getum við haft áfram einhver albestu lífskjör í heimi. Við búum enn að öllum okkar raunauði. Við búum að einhverri best menntuðu þjóð í Evrópu. Við búum að náttúruauðlindum sem nánast allar aðrar þjóðir heims geta öfundað okkur af. (Gripið fram í: Ekki þó velferðar….) Við búum að lagakerfi, dómskerfi, félagsauði. Það er sama hvar drepið er niður fæti. Við erum alls staðar ágætlega sett. Ég skal alveg viðurkenna að það er ýmsum að þakka. Það er kynslóðunum sem gengið hafa á undan okkur að þakka. Þær hafa skilað afskaplega góðu búi þrátt fyrir að vissulega verði að viðurkenna að þeim sem héldu um stjórnvölinn u.þ.b. frá aldamótum voru mislagðar hendur, en þegar litið er lengra aftur í tímann hefur Íslendingum tekist að búa til öfundsvert og ríkt þjóðfélag og það ríkt að það getur staðið undir áföllum eins og þeim sem við höfum orðið fyrir.

Við getum kannski rifjað upp líka hvað gekk á þegar lætin voru hvað mest, hvað það var sem bjó til þennan óskaplega viðskiptahalla, þennan svakalega innflutning sem skilaði sér í öllum þessum skuldum. Það má taka lítil dæmi sem auðvitað vega ekki þungt en eru bara táknræn, eins og um íslenska bankann sem fór með tvær — eða voru það þrjár — þotur fullar af Íslendingum til Mílanó, m.a. til að borða þar gull. Við getum rifjað upp að Íslendingar fluttu inn fleiri glæsijeppa en samtals var gert annars staðar á Norðurlöndunum. Við getum rifjað upp poppstjörnurnar sem fluttar voru inn frá útlöndum. Ekkert af þessu þurfum við að endurtaka. Við þurfum ekki að eyða gjaldeyri í þetta framar þannig að sparnaðurinn verður líklega að mestu leyti fólginn í því að við skrúfum niður ruglið, endurtökum ekki gullátið. Við hlustum á Elton John af plötum eða sleppum því alveg að hlusta á hann frekar en að flytja hann inn fyrir tugi milljóna króna og svo mætti lengi telja. En við þurfum ekki að spara við okkur matvæli, lyf eða fatnað. Við þurfum ekki að neita að standa við skuldbindingar okkar vegna þess að við eigum ekki fyrir þeim. Það er einfaldlega rangt.

Sumir hafa lagt til að við förum einhvers konar Argentínuleið, bara neitum að borga. Hversu ábyrgt er það? Hefur einhver kynnt sér sögu Argentínu sem eru mestu vonbrigði 20. aldarinnar í hagsögunni? Þetta var eitt ríkasta land í heimi framan af 20. öldinni, miklu ríkara en Ísland. Það var ríkara en fyrrverandi nýlenduþjóðin Spánn. En þeim hefur haldist svo illa á sínum málum að þeir hafa rambað á barmi gjaldþrots árum saman með lífskjör sem eru farin að nálgast lífskjör þriðja heims ríkja, orðnir miklu fátækari en löndin sem þeir báru sig saman við í upphafi 20. aldarinnar og framan af henni. Ef þetta á að verða fordæmið, ef Ísland á að verða Argentína 21. aldarinnar höfum við tekið rangar ákvarðanir. (Gripið fram í: Sagðirðu ekki Kúba einhvern tímann?) Ef menn vilja breyta Íslandi í Kúbu 21. aldarinnar líst mér ekkert betur á það.

Virðulegi forseti. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir snýst öðrum þræði um það hvort við ætlum að komast frá þessu hruni íslenska fjármálakerfisins með fullri reisn í samvinnu við nágrannaþjóðir okkar, fara með friði, standa við skuldbindingar okkar, virða eignarréttinn, virða lögin og halda uppi, áfram sem hingað til, lífsgæðum sem eru slík að afgangur heimsins öfundar okkur af þeim eða hvort við ætlum að svíkjast undan, standa ekki í skilum og bera við fátækt sem er einfaldlega röng. Við förum fram með röngum rökum um að við getum ekki borgað þegar við getum borgað án þess að íþyngja þegnunum eða ríkinu umfram greiðslugetu. Þetta er í raun og veru einfalt val.