Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 14:24:44 (2434)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:24]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Þessi loforð eru ekki tekin gild þar sem nú er ríkisstjórnin að fresta vandamálinu um að borga þessar gríðarmiklu Icesave-skuldbindingar þar til eftir sjö ár. Ríkisstjórnin sjálf er að búa til sjö ára hefðbundna kreppu með því að fresta byrjun afborgana þar til eftir sjö ár.

Að standa í pontu Alþingis og lofa því að við verðum komin á lappirnar eftir 15 ár er fullkomið ábyrgðarleysi og raunverulega skil ég ekki hvað hæstv. viðskiptaráðherra er að fara, (Gripið fram í.) enda er hlutverk hans í ríkisstjórninni að verja ríkisstjórnina og tala þannig um hana að hún njóti frekar trausts í samfélaginu. Hæstv. viðskiptaráðherra sækir umboð sitt til þeirra 11 einstaklinga sem sitja í ríkisstjórninni, ég bendi á að hæstv. viðskiptaráðherra er ekki þjóðkjörinn eins og þingmenn og restin af ríkisstjórninni mínus hæstv. dómsmálaráðherra. Þetta er svo mikill ábyrgðarhluti og ég minni hæstv. viðskiptaráðherra á að hér á landi ríkir ráðherraábyrgð (Forseti hringir.) og um hana má lesa í stjórnarskrá Íslands.