Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 14:26:39 (2436)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:26]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þá bjartsýni sem fólst í ræðu hans um möguleika okkar til að vinna okkur út úr þeirri skuldastöðu sem upp er komin. Fyrir mér skiptir þó mestu þegar ráðherrar í ríkisstjórn mæla fyrir þessu máli að þeir geri grein fyrir því hvers vegna íslenska eigi ríkið að taka á sig ábyrgð á innstæðutryggingarsjóðnum. Hæstv. ráðherra tefldi fram ákveðnum rökum. Hann nefndi það að hér hefðu komið við sögu íslenskir bankar, íslenskir eigendur þeirra og íslenskt eftirlit. En það bara dugar ekki eitt og sér og við hljótum að taka með í reikninginn þær væntingar sem reglugerð Evrópusambandsins um innstæðutryggingar gaf innstæðueigendum sem treystu útibúi Landsbankans fyrir innstæðum sínum á grundvelli þeirrar reglugerðar. Þegar hún bregst getum við ekki lengur sagt að hér hafi bara íslenskir kraftar verið að verki. Það komu fleiri að því máli.