Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 14:28:48 (2438)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:28]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Staðan er þessi: Bretar og Hollendingar eiga kröfur sem þeir leystu til sín frá innstæðueigendum. Þeir eiga kröfu á íslenska innstæðutryggingarsjóðinn, þeir geta sótt hann hérna á Íslandi. Það liggur alveg fyrir hvar þeir geta leyst úr hinum lagalega ágreiningi.

Það sem hæstv. ráðherra hefur sagt í þessu máli, kom svo sem ekki inn á í ræðu sinni núna, er að þessar þjóðir hyggist beita okkur þvingunum til að ná sinni hlið málsins fram. Það er fyrir þessum þvingunum sem ég segi að við eigum ekki að beygja okkur. Ég segi: Við eigum ekki að samþykkja samninga sem við erum ósáttir við. Við eigum ekki að taka á okkur allar byrðarnar á því að regluverk Evrópusambandsins brást jafnvel þótt hæstv. ráðherra geti komið hingað upp og fært fyrir því rök að við getum risið undir greiðslunum inn í framtíðina vegna þess að það að við getum borgað er ekki nægjanlegt sem rök. Við þurfum að finna fyrir því réttlætingu sem stenst skoðun hvers vegna (Forseti hringir.) íslenskir skattgreiðendur eigi að taka á sig hundruð milljarða.