Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 14:30:03 (2439)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:30]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég endurtek að það liggur fyrir að einhverjir hafa haldið því fram að innstæðutryggingareglukerfið hafi með einhverjum hætti verið meingallað. Það má sjálfsagt takast á um það árum saman. En hvað gerðist? Jú, banki fór á hausinn og innstæðurnar voru tryggðar eins og til var ætlast þannig að ég fæ ekki alveg séð hvað brást. Ég get hins vegar sagt ykkur hvað brást í hinu evrópska regluverki. Það var að þegar íslenskur banki sigldi til Hollands á vormánuðum 2008 með vonlausan efnahag í miklum lausafjárvandræðum og í raun að hruni kominn þá tókst Hollendingum ekki að stöðva hann þrátt fyrir að vilji þeirra stæði til þess. Það er galli í hinu evrópska regluverki.