Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 15:11:37 (2452)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Okkur þarf ekkert að koma á óvart málflutningur hæstv. félagsmálaráðherra þar sem hann er líka væntanlega sérstakur talsmaður Evrópusambandsins hér á þingi.

Ég vil hins vegar benda hæstv. ráðherra á nokkuð. Ef ég man rétt þá var í þessu Memorandum of Understanding sem hann veifar hér og sem þingmenn, að mér skilst, megi nú ekki taka út af skrifstofum þingflokka sinna — en ég lít svo á, frú forseti, að það sé búið að afnema það og við megum fara með þessi gögn hérna inn í þingið fyrst ráðherrann gerir það — þá kemur fram að ef aðilar eru síðar meir ekki sáttir við það sem fram kemur í þessu minnisblaði þá sé hægt að endurskoða það ef báðir aðilar samþykkja það, eitthvað slíkt.

Það hefur komið fram og kemur fram í þeim leynigögnum sem ég skil ekki af hverju eru leynigögn en ég náði aðeins að kynna mér í morgun, að gerðar voru athugasemdir síðar við þetta minnisblað, annars vegar vegna ágreinings um lagamál og hins vegar vegna þess að efnahagshrunið varð miklu verra. Þess vegna er þetta ekki bindandi samningur.

Svo væri ágætt að fá að vita hvers vegna hann nefnir ekki að (Forseti hringir.) ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytisins skrifar líka upp á það. Er það vegna þess að Samfylkingin var þarna í ráðuneytinu?