Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 15:13:56 (2454)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega alveg óttalegt dæmalaust sérstakt rugl í hæstv. ráðherra að halda því fram að þetta minnisblað sé löggiltur samningur. Ég skil þá ekki hvers vegna menn voru yfirleitt þá að gera einhvern flóknari og stærri samning ef þetta er hið eina og sanna plagg. Það er mjög sérstakt.

Það kemur fram líka í þessum ágætu leynigögnum sem við fáum að kynna okkur nánast í dulkóðuðu herbergi að stjórnvöld — eða það var bent á það að í ljósi þessa mikla hruns sem hér varð þá getum við ekki staðið við það sem áður var sagt, þá geta Íslendingar ekki staðið við það sem sagt var í byrjun október. Það kemur fram í þessum gögnum sem við megum ekki fara með út úr þessu herbergi. Ég mótmæli því hér með að við megum ekki birta þetta. Ég skil það ekki.

Það er eitt sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra um: Finnst honum engu skipta þau orð franska seðlabankans um þessa tilskipun Evrópusambandsins að hún eigi ekki við í kerfishruni? Skiptir það engu máli?