Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 15:19:24 (2459)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:19]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ósköp litlu við það að bæta sem hér er búið að útskýra mjög vel. Það eru varnaglar í þessum samningi til að tryggja ákveðin tengsl við greiðsluþolið. Ef þessi greiðsluþolsútreikningur verður þannig þegar að honum kemur (Gripið fram í: Hann er ...) þá er það auðvitað bara þannig að þá munum við geta beitt þessu varnaglaákvæði. Því er mjög mikilvægt að hafa þetta ákvæði. Núna finnst mér þingmenn Framsóknarflokksins sem hafa gert lítið úr gildi þessa ákvæðis hingað til vera komnir í nokkurn hring. Auðvitað skiptir það mjög miklu máli að hafa ákvæði af þessum toga sem við getum vísað til til að passa að þessar skuldbindingar verði ekki þannig og að afborganirnar verði ekki þannig að við fáum ekki risið undir þeim. (Gripið fram í.) Þetta þýðir þá í sjálfu sér að allar þær röksemdir sem hér hafa verið færðar fram af hálfu framsóknarþingmanna síðustu daga um að verið sé að leggja óbærilegar klyfjar á okkur — þ.e. að nú eru menn komnir í dálítinn hring í (VigH: Samningurinn getur ekki tekið gildi með þessu ákvæði.) málflutningi sínum.