Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 15:40:49 (2466)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:40]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað er hæstv. ráðherra hér eiginlega að segja? Í fyrsta lagi er þetta: Ef ríkisstjórnin fellur þá verður hæstv. ráðherra að gera sér grein fyrir því að það verður ekki fyrir tilstuðlan stjórnarandstöðunnar heldur vegna innanmeina ríkisstjórnarinnar og innan stjórnarliðsins sjálfs vegna þess að ríkisstjórnarflokkarnir tveir eru með meiri hluta. Ef hæstv. ráðherra meinar eitthvað með því sem hann er að segja í sinni framsögu um að hann vonist til þess að hér geti tekist sátt um að gera eitthvað annað en ríkisstjórnin er að leggja til og meinar eitthvað með því að það sé óásættanlegt að leggja þær klyfjar sem felast í samkomulaginu á komandi kynslóðir án þess að skýr lagalegur grundvöllur sé til staðar þá getur hann ekki á sama tíma komið hingað upp og sagt: „Kannski er það svo að vinstri stjórnin sem ég sit í núna er 600–900 milljarða virði.“