Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 16:01:00 (2472)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:01]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður vakti máls á því hér áðan að svo virtist sem Samfylkingin vildi ekki kannast við verk sín í síðustu ríkisstjórn (BJJ: Hárrétt.) og vildi ekki kannast við stjórn sína í utanríkisráðuneytinu í þeirri ríkisstjórn. Mér er það bæði ljúft og skylt að leiðrétta þennan misskilning hv. þingmanns. Ég er fyrir mitt leyti og held að við samfylkingarmenn séum afskaplega stoltir af því hvernig haldið var á málum af hálfu utanríkisráðuneytisins í kjölfar hrunsins. Ég held að hæstv. þáverandi utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi unnið þrekvirki við þær aðstæður.

Ég held líka að ef (REÁ: Það þurfti nú fyrst að sannfæra ykkur.) Samfylkingarinnar hefði ekki notið við við þær aðstæður til þess að reyna að halda landinu opnu, berjast gegn þeim öflum sem hér vildu skella í lás, sem vildu ekki borga skuldir óreiðumanna, þá veit ég ekki alveg hvernig hefði farið. Ég veit alveg þá sögu og hv. þingmaður þekkir hana líka, þ.e. hvernig við var að glíma þau öfl sem ekki ætluðu sér að standa við alþjóðlegar skuldbindingar landsins, hvernig staðan var af hálfu yfirstjórnar Seðlabankans sem barðist um á hæl og hnakka gegn því að leitað yrði samstarfs við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þessi saga verður skrifuð (Gripið fram í.) og það er algjörlega ljóst að ef ekki hefði verið fyrir málafylgju Samfylkingarinnar í utanríkisráðuneytinu þá hefðu mál farið hér öll á verri veg.

Það var líka rætt hér um ósamkvæmni í málflutningi. Samfylkingin hefur alltaf verið fullkomlega samkvæm sjálfri sér í málflutningi í þessu máli. Við höfum alltaf talið það óraunsætt að halda að við hefðum það sterka stöðu lagalega að við gætum farið með þetta mál fyrir dómstóla enda sáum við aldrei hvaða dómstóll það ætti að vera. Við höfum alltaf talið rétt að það yrði samið um málið. Hitt þykir mér fróðlegt að heyra hér frá hv. þingmanni að hún segir hér að forsætisráðherra hafi dregið til baka það skjal sem Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóri skrifaði undir og heitir Memorandum of Understanding, með öðrum orðum segir hún að ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu hafi farið út fyrir umboð sitt þegar hann gerði skjalið. Það eru athyglisverðar upplýsingar.