Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 17:23:32 (2500)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:23]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög líklegt að ég hafi misskilið eitthvað í orðum hv. þingmanns en mér fannst hann segja að af því að við segðum hér mörg hver, og ég gerði það sjálf, að okkur væri ekki ljúft að mæla fyrir þessum samningi og þess vegna ættum við ekki að gera það eða að vera í þessari stöðu þá á ég ekki við það. Mér er alveg ljúft að mæla fyrir þessum samningi í þeirri stöðu sem við erum í. En ég held að hv. þingmaður sé sammála mér í því að engu okkar er ljúft að vera í þeirri stöðu sem þjóðarbúið er í núna, bara svo að það sé alveg ljóst. Þetta er sú lausn sem ég sé núna besta á því hvernig við komumst út úr þeim þrautum sem þetta þjóðarbú er í.

Ég vil líka segja að ég hef heldur ekki sagt — þegar ég vitnaði til samningsumboðsins sem gefið var 5. desember þá dettur mér ekki í hug að það hafi verið að skylda neina þingmenn til að samþykkja ríkisábyrgð. Þeir voru að gefa heimild til þess að ganga til samninga. Núna er umræðan um ríkisábyrgðina og þá hljóta þingmenn að taka ákvörðun um það.

Í þriðja lagi langar mig að segja að hv. þingmaður vitnaði til þess að ég hefði viðurkennt að ég teldi óvissuna við að gera samninginn ekki meiri — það er ekkert að viðurkenna. Það er bara niðurstaða mín. Þá vil ég benda hv. þingmanni á það líka að það er óvissa eða áhætta. Í krossgátu væri hægt að nota orðin þannig. Ég segi: Áhættan við að stoppa hér öll gjaldeyrisviðskipti í marga mánuði í viðbót, þ.e. ég tel hana meiri en þá að gera samninginn sem yrði til þess vonandi að (Forseti hringir.) hleypa okkur aftur á flot.