Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 17:46:55 (2506)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:46]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom inn á það að þegar þorskastríðið var stóðu Íslendingar í lappirnar gagnvart stórþjóð — það má alveg lýsa því þannig að það hafi verið visst stríðsástand.

Fyrirsögn Morgunblaðsins í gær var einhvern veginn á þann veg að Bretar hefðu allan tímann beitt Íslendinga harðræði í samningaferlinu. Hún hefði líka getað verið: Íslendingar sýndu allan tímann linkind í samningaviðræðunum. Það er málið. Ég átta mig vel á því að Bretar eru að gera það sama og við gerðum í þorskastríðinu, en ég hlýt þá um leið að gagnrýna mjög hvernig haldið er á þessu máli miðað við það hvernig var haldið á því máli. Þá stóðu Íslendingar í lappirnar og það var til hagsbóta fyrir íslenskan almenning.

Þingmaðurinn spurði mig líka hvort ég hefði ekki áttað mig á því í haust að hér hefði verið mjög erfitt ástand, og líkti því við stríðsástand. Ég varð fullkomlega var við það. Ég tók þátt í því ásamt öðrum þingmönnum að samþykkja hér neyðarlög. Við gerðum það á sex tímum og þá þurfti maður stundum, og ég viðurkenni það fúslega, að treysta á ráðleggingar þeirra sem höfðu farið betur ofan í það mál.

Það hefur hins vegar ekkert með það að gera að við eigum að samþykkja Icesave-skuldbindingarnar. Það er alveg rétt að hér lokuðust leiðir og við þurftum að fara út í það að setja takmarkanir á gjaldeyrisflæðið, og það er enn þá, ekki er búið að aflétta því. Við eigum ekki þrátt fyrir það (Forseti hringir.) að samþykkja nauðasamninga (Forseti hringir.) sem skuldbinda þjóðina 20 til 30 ár fram í tímann.