Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 17:55:56 (2510)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:55]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég get ekki sætt mig við í þessu máli er það að íslensk stjórnvöld geti ekki látið reyna á það hvort innstæðutryggingakerfi Evrópu standist og hvort túlka eigi það þannig, eins og Stefán Már og Lárus Blöndal, lögmenn og prófessorar — já, hæstaréttarlögmenn, hafa haldið fram. Ég get ekki sætt mig við það.

Ég get heldur ekki fallist á það — eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði hér í dag og ég gat ekki skilið hann öðruvísi en að frestur til þess að höfða mál á þessum forsendum hefði runnið út. Það er alveg hárrétt að þessi þriggja mánaða frestur varðandi beitingu hryðjuverkalaganna rann út 7. janúar. Um það snýst málið ekki. En fresturinn til þess að láta reyna á hitt er ekki runninn út í mínum huga. Það sem ég er að reyna í þessu er að reyna að fá niðurstöðu og rök fyrir því að við eigum að borga þetta. Ég hef ekki fengið þau rök.

Hæstv. ráðherra veifar hér einhvers konar skjali um að samþykkt hafi verið einhvers konar tenging við lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og við lánin frá Norðurlöndum. Nú hafa einstakir ráðherrar Norðurlandanna stigið fram og fullyrt að það sé engin tenging. Hverju á maður að trúa? Eigum við þá ekki í besta falli að samþykkja að óvissa sé um þetta atriði? Við getum ekki hengt okkur á það ef það er óvissa um þetta atriði, við getum ekki bara sagt: Við eigum að borga það af því að við vorum búin að segja það og það er tenging þarna á milli.

Hvernig getur þá verið að við séum nú þegar búin að skrifa undir lán við Norðurlöndin en ekki undir Icesave, ef tenging er þar á milli? Ég get ekki séð þetta og bendi enn á ný á (Forseti hringir.) fullyrðingar talsmanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að það séu (Forseti hringir.) ekki tengingar þar á milli.