Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 18:03:07 (2513)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:03]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Sá vandi sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir vegna hinna svokölluðu Icesave-reikninga er ákveðin birtingarmynd af þeim vanda sem vestræn fjármálakerfi standa frammi fyrir, sá vandi að sökum þess hversu óstöðug fjármálakerfi hafa reynst í sögunni, þ.e. sú hætta að bankastofnanir verði fyrir lausafjárvanda þrátt fyrir að viðkomandi stofnanir séu með traustan og öruggan rekstur, að tímabundinn lausafjárvandi valdi því að bankastofnun fari á hausinn, með skelfilegum afleiðingum auðvitað fyrir stofnunina sjálfa en þó ekki síður þá sem lagt höfðu þar inn fé eða reiddu sig með öðrum hætti á áframhaldandi starfsemi.

Til að mæta þessu hefur verið farin sú leið að ríkið rekur seðlabanka og hefur þá grunnhugsun að hægt sé að mæta með prentun seðla eða lánum slíkum vanda sem kæmi upp vegna lausafjárskorts. Þessi hugsun hefur síðan í raun gengið lengra og ríkisvaldið hefur með einum eða öðrum hætti gengist í ábyrgðir fyrir fjármálastofnanir. Það veldur auðvitað eitt og sér heilmiklum vanda, þeim vanda að gróðinn liggur þá hjá þeim sem eru hluthafarnir en það er búið að koma málum þannig fyrir að fari illa er það hið opinbera sem kemur á móti. Innstæðukerfin eru í eðli sínu einmitt komin til vegna þessa, að ríkisvaldið telur það mikla hagsmuni undir að fá fólk til þess að leggja peninga inn í banka að það sé nauðsynlegt að það sé einhvers konar trygging þar að baki.

Það verður þó að segjast eins og er að hvað varðar hið evrópska tryggingakerfi finnst mér blasa við að það eru gallar á því kerfi. Og hver er gallinn? Jú, augljóslega að úr því að gert er ráð fyrir því að það sé ríkisvald að baki innstæðunum er náttúrlega þar með verið að segja að bankarnir séu að nokkrum hluta ríkisreknir, með ríkisábyrgð. Það eitt og sér gengur gegn þeirri meginhugsun sem er um frjálsa samkeppni á markaði, að það sé óeðlilegt að ríkið komi með þessum hætti að en hitt er kannski enn þá meira gegn allri þeirri hugsun sem er um Evrópska efnahagssvæðið, innri markað Evrópu, að ef það er virkilega svo að bankarnir njóti ríkisábyrgðar á innstæðum felur það auðvitað í sér þá staðreynd að bankar frá litlum löndum, smáum ríkjum, fámennum ríkjum eins og okkar, geta ekkert starfað á þeim markaði með sama hætti og bankar frá stærri löndum. Það er bara ómöguleiki fólginn í því vegna þess að stóru bankarnir geta þá starfað í skjóli þeirrar ríkistryggingar sem fylgir stórum ríkjum, rekið útibú í öllum löndum, safnað innstæðum og styrkt sig með þeim hætti en bankar frá minni ríkjum geta þá væntanlega ekki gert það.

Þetta er auðvitað eitt af þessum grundvallaratriðum sem segir manni að það er eitthvað meiri háttar að þessu kerfi, svona hafa menn auðvitað ekki hugsað þetta. Á sama tíma er alveg ljóst að það eru gríðarlegir hagsmunir undir hjá helstu þjóðum Evrópu að ekki sé verið að draga í efa það innstæðukerfi og þær tryggingar sem eru að baki innstæðunum í evrópskum bönkum. Gott og vel, og við Íslendingar erum fórnarlömb þeirrar stöðu.

Það er allt rétt sem hér hefur verið sagt, að gáleysislega hafi verið farið með, að þannig hafi verið haldið á málum hvað varðar Icesave-reikningana að ámælisvert er. Það breytir ekki því að kerfið er gallað. Mér finnst, og ég held að allir hljóti að geta verið sammála um það, óréttlátt að við Íslendingar einir berum af því hallann. Það hefur komið fram, m.a. hjá sérfræðingum í sænska seðlabankanum, í bréfum sem hafa verið send þar til yfirmanna bankans, að það sé óeðlilegt að Ísland beri allan þungann af þessu máli, það sé eðlilegt að gistiríkin deili því með okkur Íslendingum að það falli ekki með öllu allt saman á okkur.

Það sem ég hef kannski einna helst við þennan samning að athuga sem hér hefur verið lagður fram er að með engum hætti er tekið tillit til þessara sjónarmiða, með öðrum orðum er ekki komið til móts við okkur Íslendinga með að dreifa áhættunni af málinu. Við sitjum alfarið uppi með hana. Í raun má segja að niðurstaða þessa samnings sé nokkurn veginn sú sama og hefði fengist ef Ísland hefði fengið þetta mál inn í dómstóla, niðurstaða dómstólsins hefði verið sú að Íslandi bæri að bera þetta allt og síðan í kjölfar þess, á grundvelli þeirrar niðurstöðu, hefðu menn sest niður og búið til samning svipaðan þessum af því að í grunninn — og það er aðalatriðið — segir þessi samningur: Ísland ber ábyrgð á þessu öllu óskipt. Það er það sem ég held að sitji í mörgum hvað varðar þetta samkomulag.

Það er ekki þar með sagt að við Íslendingar þurfum ekki að borga, en ég kem að því aðeins síðar. Ég vil rétt nefna meðan ég hef tíma til að mér finnst hlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í þessu máli ekki stórmannlegt eða glæsilegt. Það er eiginlega óþolandi að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn skuli setja sig í þá stöðu að vera einhvers konar innheimtumenn fyrir Breta og Hollendinga. Það er eiginlega allt að því óskiljanlegt og ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa sagt hér í dag að það væri hneisa fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Hann á auðvitað að nálgast okkar mál á grundvelli þess að við erum aðilar að sjóðnum og höfum verið það allt frá stofnun, ef ég man rétt, og með engum hætti ætti að tengja okkar mál við Breta og Hollendinga, við það prógramm sem stillt hefur verið upp með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Jafnframt verð ég að segja að aðgerðir bresku ríkisstjórnarinnar gegn okkur Íslendingum, beiting hryðjuverkalaga gegn okkur, eru auðvitað einkar ógeðfelldar. Það mætti segja að það væri eðlilegt í ljósi þess að til slíks var gripið að þess ætti að sjá nokkurn stað í því samkomulagi sem skrifað var undir. Það er svo augljóst að beiting hryðjuverkalaganna olli okkur Íslendingum alveg gríðarlegum búsifjum. Það ættu þess vegna að hafa átt að vera sérstök rök fyrir því í málinu, bæði gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og gagnvart samningsaðilum okkar, að sökum þess hvernig fram var komið ætti að reyna að finna leiðir til að dreifa áhættunni á milli landanna.

Það sem ég á við með að dreifa áhættu er að nálgast málið þannig að segja: Það sem eftir stendur eftir sjö ár og er ógreitt erum við tilbúin til að greiða á sjö árum en þó þannig að við greiðum ekki á hverju ári meira en nemur ákveðinni upphæð sem hlutfalli af þjóðarframleiðslu.

Hvað varðar síðan lögmætið veltir maður því auðvitað fyrir sér hvort við höfum staðið nægjanlega fast í ístaðinu þegar kemur að því hvernig við bárum okkur að. Á fyrstu mánuðunum eftir hrunið vorum við Íslendingar ekki í nokkurri stöðu. Það var erfitt að koma peningum til og frá landinu og það má segja að menn hafi verið í sannkallaðri kastþröng og átt völ fárra úrkosta. En það er merkileg frétt sem ég rakst á í Viðskiptablaðinu, frétt sem var tekin upp úr Lundúnablaðinu Times, þar sem segir frá því að Evrópudómstóllinn hafi hnekkt fyrr í þessum mánuði ákvörðun breskra stjórnvalda um að frysta eignir manns sem heitir Abu Qatada en sá maður er múslimskur harðlínuklerkur sem lýst hefur verið sem andlegum sendiherra Osama bin Ladens í Evrópu. Með öðrum orðum, Evrópudómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að meira að segja gegn þessum Abu Qatada, sem er sérstakur andlegur sendiherra bin Ladens, stóðst ekki að beita þessum hryðjuverkalögum gegn honum.

Þá getur maður auðvitað velt fyrir sér hversu góð rök það voru sem stóðu að baki því að beita slíkum lögum gegn okkur Íslendingum. Reyndar er annað slíkt mál sem er rakið í þessari frétt sem snýr að ágætum manni sem kallaður er Yasin Kahdi, sádí-arabískum athafnamanni sem er á lista Sameinuðu þjóðanna yfir menn með tengsl við al Kaída og er talinn einn af hættulegri mönnum veraldarinnar, meira að segja hann vann málið þegar sambærilegum lögum var beitt gegn honum. Það skilur eftir óbragð í munninum þó að ég svo sem skilji vanda sem ríkisstjórnir hafa staðið frammi fyrir í þessu máli vegna þeirrar þröngu stöðu sem við vorum komin í, en það er einhvern veginn alveg ömurlegt að vinaþjóð okkar, Bretar, skuli hafa komist upp með það að beita okkur þessu harðræði með þessum ósanngjarna hætti og að á sama tíma skuli málið eiga að enda í því að við berum alla ábyrgð á upphæðinni. Það er hvergi komið til móts við það að þetta er ekki bara vandi Íslands, þetta er vandi hins evrópska innstæðutryggingakerfis og þess vegna á auðvitað að bregðast við því með þeim hættinum.

Fram undan er að við tökum þetta mál fyrir í fjárlaganefnd. Það er von mín að þar skýrist öll þessi mál. Það eru þættir sem ég hef ásamt mörgum öðrum rekið augun í, t.d. hvað varðar ákvæði sem byggja á því að hægt sé að endurskoða samninginn komi til þess að greiðslugeta Íslands sé skert. Þá skiptir máli orðalag og skilningur, hvað sé átt við með skuldaþoli og um leið hversu mikið frávik frá því skuldaþoli sem talað er um í samningnum er áður en menn geta sagt: Hér er nóg komið, lengra verður ekki gengið.

Eins er talað um það í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Íslensk stjórnvöld líta svo á að verði endurskoðunarákvæði samninganna virkt vegna verulegrar breytingar á skuldaþoli Íslands séu Bretar og Hollendingar, á grundvelli umsömdu viðmiðanna sem samþykkt voru í Brussel í nóvember 2008, skuldbundnir til þess að taka fullt tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í …“

Þetta er okkar skoðun og maður veltir því fyrir sér, og væntanlega kemur það fram í meðförum hv. fjárlaganefndar, hvort það sé alveg örugglega líka skilningur viðsemjenda okkar að það sé alveg á hreinu hvað þarna sé átt við, hvernig verði með málið farið komi þessi staða upp, og hvað átt er við nákvæmlega með því að það hafi orðið verulegt frávik frá skuldaþolinu.

Þá má ekki gleyma því að við erum þrátt fyrir hrunið ein af ríkustu þjóðum Evrópu. Það kann vel að vera að þeir sem við erum að semja við og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem hefur séð margt erfitt í þessum heimi, segi sem svo: Þið Íslendingar eruð ekki of góðir til að halda áfram að borga. Þið eruð þrátt fyrir þessar greiðslur enn í hópi ríkustu þjóða Evrópu. Þeir gætu t.d. haldið því fram að það væri allt í lagi þó að þjóðarframleiðsla á mann hér dytti niður eða það sem væri afrakstur hagkerfisins að Icesave-reikningunum greiddum væri svipað og þjóðarframleiðslan á mann í Portúgal og segðu: Ykkur er ekki að vanbúnaði að búa við sömu kjör og eru t.d. í Suður-Evrópu. Svo bara vinnið þið ykkur út úr þessu seinna meir.

Ég átta mig á því að í textanum er talað um frávik frá því skuldaþoli sem var metið hér á síðasta ári en ég hef áhuga á því að skilja og vonast til að það komi fram við næstu umræðu hvað átt er við með því, hvort það sé sameiginlegur skilningur á því nákvæmlega hvað gerist ef til þeirrar ógæfu kemur að það mundi reyna á slíkt, að Ísland væri svo illa statt að það mundi kalla fram það mat.

Að öðru leyti verð ég að segja að það er fullur skilningur á því af hálfu okkar sjálfstæðismanna hversu erfitt málið er. Við tókum þátt í því að veita ríkisstjórn heimild til að ganga til samninga. Það að veita heimild til að ganga til samninga er ekki hið sama og að þingið hafi skuldbundið sig til þess að skrifa undir hvaða samninga sem er. Það má ekki leggja það að jöfnu að með því að menn hafi verið reiðubúnir til að hefja þetta ferðalag væru menn tilbúnir til að segja já við hverju sem er. Það er eðlilegt að Alþingi taki á svona máli, það er einmitt eðlilegt að löggjafarvaldið, vegna þessa mikilvæga fjárveitingavalds sem hér er inni, hafi skoðun á þessum samningi, að við leggjum á það sjálfstætt mat, einmitt í ljósi þess umboðs sem við veittum, hvort þessi samningur sé þannig úr garði gerður að það sé hægt fyrir Alþingi að samþykkja hann.