Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 18:20:45 (2515)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:20]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir athugasemdirnar og vil taka aðeins áfram þessa umræðu um stöðu smáþjóða í þessu kerfi. Mér þykir alveg einsýnt að hafi hugsunin allan tímann verið sú að það væri ríkisábyrgð á bak við ábyrgðarsjóðina innihéldi það fullkomna og algjöra samkeppnishindrun fyrir fjármálastofnanir sem eru í smáríkjum. Það er bara eðli málsins samkvæmt. Það eitt og sér ætti að vera mönnum til umhugsunar og hitt líka hvernig í ósköpunum það mætti vera. Ég held að það hafi verið hæstv. heilbrigðisráðherra sem benti á það hér í ræðu hvernig það mætti vera ef þetta hefði gerst nokkrum árum síðar og þessir reikningar hefðu verið komnir inn í hvert einasta Evrópuland. Eða var það þannig að það var ekki möguleiki fyrir — við skulum segja að það hafi verið heilbrigður og góður rekstur að baki bankanum en síðan bara kemur eitthvað hræðilegt fyrir nokkrum árum seinna, allt saman hrynur og það væru komnar þannig skuldbindingar vegna þessara innstæðureikninga að það væri algjörlega og fullkomlega útilokað að Íslendingar, þ.e. smáþjóð, gætu staðið undir slíkum skuldbindingum.

Það er sama hvernig maður horfir á þetta mál, maður sér alltaf að það er greinilegt að þetta kerfi er gallað, það hefur ekki verið hugsað til þess að mæta kerfishruni. Það verður kerfishrun á Íslandi og það er alveg ferlegt að Bretar og Hollendingar, sem voru gistiríki þessara Icesave-reikninga og útibúa frá Landsbankanum, hafi ekki verið tilbúnir til að viðurkenna þetta og horfast í augu við þetta og verja þá saman og sameiginlega með okkur Íslendingum og öðrum hið evrópska fjármálakerfi, en ekki bara segja: Við getum beitt ykkur Íslendinga ofbeldi, af því að þið eruð svo lítil og fá og þurfið á okkur að halda ætlum við bara að láta ykkur sitja uppi með þetta allt saman. Það er óréttlátt og það er rangt og það býr til skelfilegar aðstæður fyrir þjóðfélag okkar sem gerir það að verkum að okkur finnst það öllum, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, hvar sem við erum (Forseti hringir.) í landinu. Það er óbragð í munninum og það er vont fyrir eina þjóð að þurfa að ganga áfram inn í þá erfiðleika sem við erum að fara með slíkt óbragð og að við höfum verið beitt óréttlæti.