Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 18:49:42 (2522)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:49]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér stórmál á alla mælikvarða stórmála. Umræðan hér í dag hefur verið ágæt, hún hefur verið upplýsandi og hún hefur farið um víðan völl. Þetta er stórt mál og hægt er að líta til fortíðar og til framtíðar og það þurfum við að gera til þess að geta tekið afstöðu til þessa máls. Við verðum að skoða það frá öllum hliðum þess.

Eins og hér hefur komið fram, og ég endurtek það, er hæstv. fjármálaráðherra ekki öfundsverður af þessu verkefni, við getum öll verið sammála um það. Það væri eflaust best ef við gætum öll verið sammála um hvernig við eigum að lenda málinu en það er ekki þannig. Við erum heldur ekki sammála um hver lagalegu rökin eru og hv. þm. Bjarni Benediktsson fór vel yfir það hér í ræðu sinni hvaða spurninga við eigum að spyrja. Við eigum að spyrja: Af hverju eigum við að veita þessa ríkisábyrgð? Hver er lagalega skuldbindingin? Er hún fullreynd? Það er það sem við erum hér í ágreiningi um, hvort þetta sé besta niðurstaðan sem við mögulega getum fengið.

Ég ætla svo sem ekkert að endurtaka þau rök en vil segja, og að því leytinu endurtaka það sem hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði — að við stjórnarskiptin í febrúar var gömlu samninganefndinni skipt út fyrir nýja samninganefnd, nýjar leiðir voru tilkynntar. Hæstv. fjármálaráðherra talaði um glæsilega niðurstöðu, sem hann dró svo til baka. Glæsilega niðurstaðan varð þá bærileg og svo varð hún, held ég, eina mögulega niðurstaðan og nú er þetta: Þessi niðurstaða er eina mögulega niðurstaðan vegna þess að þið sjálfstæðismenn voruð búnir að lofa þessu. Og ég segi „þið sjálfstæðismenn“ vegna þess að það er hreint með ólíkindum hvernig Samfylkingin hefur talað hér í umræðunni og mér þykir svolítið vont að það er enginn samfylkingarmaður hérna, ég treysti því að þeir sitji og hlusti á þessa umræðu úti á skrifstofum hjá sér. Ég vil taka undir með hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, ósvífni Samfylkingarinnar í þessu máli er hreint með ólíkindum.

Ég er þá að vísa til hins margrædda minnisblaðs sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson talaði um hér áðan. Hann átti orðaskipti við hæstv. fjármálaráðherra og ég get tekið undir það sem fram kom hjá þingmanninum — rökin þar sem hann rakti að það væri ekki rétt að þetta væri ígildi samnings, og hann fór vel yfir það af hverju ekki hefði verið hægt að halda því til streitu.

Ég tek líka undir með hæstv. fjármálaráðherra og dreg enga dul á það að þetta minnisblað hefur eflaust ekki hjálpað til í þessum samningaviðræðum og þetta minnisblað, sem gert var 11. október, undir óbærilegum þrýstingi, eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fór vel yfir í ræðu sinni, hefur ekki hjálpað samninganefndinni mikið í samningunum. En það sem mig langar að gera hér að umtalsefni, sem ég vísaði til hér áðan, er að þetta væri niðurstaða sem við sjálfstæðismenn höfum komið okkur í eins og samfylkingarmenn hafa haldið hér fram.

Hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, hefur ítrekað haldið því fram hér í ræðustól að þetta margumrædda minnisblað, MoU, við Hollendinga frá því 11. október sé minnisblað um samningsstefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir gagnvart Hollendingum. Hann kallaði það ólukkuminnisblað og tók það sérstaklega fram að hann, sem þá var starfandi utanríkisráðherra, hafi ekki vitað neitt um málið. Hann kom hérna aftur í dag í andsvari og hann var eins og ég veit ekki hvað. Hann sagði: Ég veit ekki neitt, ég vissi ekki neitt, ég gat ekki neitt, ég sá ekki neitt, enginn sagði mér neitt um þetta ágæta minnisblað. Ég veit ekki, virðulegur forseti, af hverju manninum var ekki sagt neitt. Það er eitthvert innanbúðarvandamál í Samfylkingunni sem ég get ekki leyst hér, en ég veit að báðir flokkar vissu af þessu minnisblaði, báðir flokkarnir í ríkisstjórn, og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði það einmitt hér í dag. Ég skil ekki af hverju Samfylkingin hefur ekki manndóm í sér til að gangast við því vegna þess að mér finnst það hreint með ólíkindum.

Hæstv. utanríkisráðherra talaði um Íslandsmet, að Sjálfstæðisflokkurinn ætti Íslandsmet í því að hlaupast undan ábyrgð. Ég segi bara: Hann hlýtur að þekkja það met svakalega vel og örugglega vera Evrópumethafi í þeim keppnisflokki vegna þess að hraðara hlaup hef ég ekki séð. Hæstv. félagsmálaráðherra hélt þessu sama fram hérna í dag. En eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir benti hér á voru tveir flokkar í ríkisstjórn á þessum tíma og hún sagði að bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra hefðu vitað af þessu máli og þá geri ég ráð fyrir að hún hafi verið að vísa til þess að utanríkisráðherrann, ekki starfandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hafi vitað af því að til stæði að skrifa undir þetta minnisblað. Ég leyfi mér að fullyrða, þó að ég hafi ekki spurt Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur eða aðra þá sem komu að þessu máli, að svo sé. Ég leyfi mér að fullyrða það að í mestu milliríkjakrísu sem upp hefur komið í Íslandssögunni — það stóð til að skrifa undir minnisblað sem hefði afdrifaríkar afleiðingar í för með sér hugsanlega, að annar flokkurinn í ríkisstjórn gerði það og tæki einn ábyrgð á því, það er óhugsandi að slík ríkisstjórn hefði þar að auki starfað áfram. Auðvitað vissu báðir flokkarnir af þessu.

Ég hvet hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttir, sem nú er horfin af vettvangi stjórnmálanna, til að koma fram í dagsljósið og skera úr um þetta. Ég veit t.d. að fundurinn í Fjármálaeftirlitinu, undirstofnun viðskiptaráðuneytisins — viðskiptaráðuneytið, ef fólk er búið að gleyma því, var á forræði Samfylkingarinnar. Ég veit að á þeim fundi, kvöldið fyrir undirritun, þetta var áritað þarna um nóttina, var fulltrúi utanríkisráðuneytisins og eftir að hafa unnið í stjórnsýslunni í mörg ár sem aðstoðarmaður ráðherra fullyrði ég það að embættismaður í utanríkisráðuneytinu hafi látið sinn ráðherra vita og jafnvel fengið umboð — alla vega að hann hafi látið ráðherra sinn vita og hafi haft samráð við hann vegna þessa máls. Mér finnst þetta ótrúverðugt og raunar til skammar fyrir hæstv. ráðherra, Össur Skarphéðinsson, að halda þessu fram hér og ætlast til þess að við trúum því, það er hreint til skammar.

Ég leyfi mér líka að halda því fram að hæstv. fyrrverandi viðskiptaráðherra hafi í það minnsta átt að vita af þessari undirritun. Fundurinn var haldinn, eins og ég sagði, í Fjármálaeftirlitinu, undirstofnun ráðuneytisins. Samningurinn er áritaður af formanni stjórnar tryggingarsjóðsins og sá einstaklingur er reyndar líka starfsmaður viðskiptaráðuneytisins. Ráðherrann fyrrverandi hafði að sjálfsögðu, í krafti síns embættis, verið innblandaður í þessi mál og hafði m.a. farið til Bretlands í septembermánuði og hitt fjármálaráðherrann út af áhyggjum út af þessu.

Við sjáum í greinargerðinni með frumvarpinu á bls. 5 að í ágúst hafði hann staðið í bréfaskriftum við breska fjármálaráðherrann út af þessu máli þar sem hann róar bresk stjórnvöld og fullvissar þau um að íslenska ríkisstjórnin muni bregðast við eins og allar aðrar ríkisstjórnir mundu gera, eins og segir. Aftur í október, fimm dögum fyrir þennan örlagaríka dag, 11. október, er hann að skrifast á við breska fjármálaráðuneytið. Ég spurði hv. þingmann, hæstv. fyrrverandi ráðherra, að þessu hér í þingsal um daginn en hann kaus að svara mér ekki en gerði það reyndar á mjög ósmekklegan hátt síðar í gegnum vefsíðu úti í bæ sem hafði tekið eftir þessari fyrirspurn minni og tekið eftir því að henni var ekki svarað. Hann svarar þar, á vefsíðunni amx.is, að honum finnist kærkomið að fá þarna tækifæri til að svara mér. Það hljómar frekar undarlega í mínum eyrum, ég hefði frekar viljað heyra það í þingsal.

Hann segir á vefsíðunni, með leyfi forseta:

„Tilefni til að svara Ragnheiði er hins vegar kærkomið og það nota ég hér. Nei, ég vissi ekki um að það ætti að undirrita þetta samkomulag. Formaður stjórnarinnar segir mér að hún hafi látið stjórn tryggingarsjóðsins vita af því fyrir fram en henni bar ekki með neinum hætti að tilkynna mér um það enda gerði hún það ekki þar sem það var undirritað um miðja nótt. Síðan var samkomulagið kynnt daginn eftir og undirritað af fjármálaráðherrum landanna tveggja. Vona ég að svarið upplýsi bæði Ragnheiði og AMX um málið.“

Hann segir sem sagt í þessu svari á vefsíðunni að þrátt fyrir að hann hafi verið að vinna í þessu sem ráðherra bankamála, þrátt fyrir að hann hafi farið ítrekað til Bretlands út af þessu máli, þrátt fyrir að hann hafi verið að skrifa breskum stjórnvöldum sex dögum fyrir þetta, hafi ekki þótt ástæða til þess að vekja ráðherrann um miðja nótt til að segja honum frá því að það stæði kannski til að lenda þessu máli. Hver ætlast til þess að við trúum því? Ég vil sérstaklega taka það hér fram að með þessu er ég á engan hátt að kasta rýrð á þá embættismenn sem ég er að vitna til og ég er ekki að áfellast þá fyrir eða saka þá um að gera eitt eða neitt. Ég er þvert á móti að halda því fram að Samfylkingin — að hæstv. núverandi utanríkisráðherra, hæstv. fyrrverandi bankamálaráðherra, viðskiptaráðherra, séu með frekar lúalegum hætti að skýla sér á bak við dygga og trausta embættismenn í stað þess að standa hér og taka pólitíska ábyrgð. Mér finnst hreint út sagt ömurlegt að verða vitni að því.

Ég leyfi mér líka að segja það að ég sakna þess að sjá ekki hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hér við umræðuna í dag. Hann er ekki viðstaddur umræðuna og það sem meira er, hann er ekki á mælendaskrá. Ég hefði talið það ósköp eðlilegt að maðurinn sem er beinn þátttakandi í þessari atburðarás og hefur þannig tækifæri til að skýra ýmsa þætti málsins af eigin reynslu — að hann kjósi að vera ekki viðstaddur umræðuna eða að vera ekki á mælendaskrá, hann er alla vega ekki kominn á þá mælendaskrá enn þá, þó ekki væri nema til að skýra og fara yfir sinn þátt og skýra sína sýn á atburðarásinni. Ég hefði haldið að hann mundi fagna því tækifæri.

Fyrst við erum að minnast á mælendaskrána, virðulegur forseti, er hún mjög athyglisverð og ég hef verið að fylgjast með henni hérna í dag. Hún vakti athygli mína fyrir það að í fyrsta lagi eru mjög fáir stjórnarliðar á henni. Gott og vel. Hæstv. félagsmálaráðherra kynnti sig hér sem talsmann síns flokks í þessu máli, sem mér finnst mjög skrýtið. Þetta er stórt mál á alla mælikvarða og fimm stjórnarliðar hafa verið hér á mælendaskrá og það er enginn eftir miðað við það sem ég sé á mælendaskrá sem ég prentaði út klukkan rúmlega sex.

Við tökum líka eftir því að það hafa tveir talað frá Vinstri grænum, hæstv. fjármálaráðherra, sem mælir með þessu og mælir fyrir frumvarpinu, og hæstv. heilbrigðisráðherra, Ögmundur Jónasson, sem ætlar að skoða málið og flutti reyndar hér mjög fína ræðu. Hann hefur verið gagnrýninn á þetta og engin vissa um hvar hann er í þessu.

Ég tók líka eftir því að rétt fyrir klukkan tólf prentaði ég út mælendaskrá og sá þá að hv. þm. Lilja Mósesdóttir, sem hefur kannski haft sig mest í frammi og mest gagnrýnt þennan samning, var á mælendaskrá og skömmu síðar er hún farin og hún hefur ekki sést hérna síðan. Hvar er þingmaðurinn sem hefur haft miklar skoðanir og menn halda að muni ekki greiða atkvæði með samningnum? Hvar er þingflokksformaður, hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sem ætlar ekki að skila auðu í þessu máli? Hvar er hún? Af hverju koma þessir stjórnarliðar ekki og gera grein fyrir afstöðu sinni, afstöðu sem fram hefur komið í fjölmiðlum að er ekki eftir flokkslínunni, svo að ég leyfi mér að alhæfa það? Ég held að þetta sé út af því að nú er ríkisstjórnin — sem ég hef leyft mér að kalla „með og á móti“–ríkisstjórnina — orðin hrædd. Hún er orðin hrædd um það að við stjórnarandstæðingar munum öll sem eitt greiða atkvæði gegn þessum samningi, og mér sýnist ekkert annað vera í boði miðað við þau gögn sem ég hef séð. „Með og á móti“–ríkisstjórnin er hrædd við þetta. Hún er hrædd við það að hún ein þurfi að bera ábyrgð á þessu, hún er hrædd við það vegna þess að hingað til hefur hún komist upp með að gera það ekki. Hún gat verið með og á móti Helguvík, hún getur verið með og á móti ESB væntanlega. En í þessu máli krefjumst við þess að hún sýni ábyrgð eða a.m.k. að þessi ríkisstjórn tryggi það að sjónarmið þeirra allra komi hér fram.

Mér finnst þetta með ólíkindum og ég ætla að spá, ég ætla að setja hérna fram spádóm. Ég spái því að ríkisstjórnin muni staðfesta þessa ríkisábyrgð. Þeim mun ekki líka það en þau munu gera með einu atkvæði. Einhverjir þrír hv. þingmenn eða hæstv. ráðherrar fá að vera á móti og það er aðallega til að friða þá vinstri græna sem eru (Forseti hringir.) óánægðir. Það sem meira er, ríkisstjórnin mun þá sitja áfram, og það er fínt, ég er ekkert að (Forseti hringir.) þessu hér til þess að reyna að koma henni frá. En treystið þið mér, þetta verður (Forseti hringir.) sú atburðarás sem við verðum vitni að hér.