Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 19:32:24 (2523)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[19:32]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Umræðurnar í dag hafa um margt verið athyglisverðar, bæði fyrir það sem hér hefur verið sagt sem og fyrir það sem ekki hefur verið sagt. Þær hafa verið athyglisverðar fyrir þær sakir hverjir hafa tekið til máls og hverjir ekki. Þær hafa þó enn ekki orðið til að breyta afstöðu minni í þessu máli. Ég er enn þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að samþykkja frumvarpið sem hæstv. fjármálaráðherra hefur talað fyrir. Þau gögn sem við höfum fengið að sjá í málinu hafa ekki gert það heldur að því leyti sem ég hef náð að kynna mér þau né heldur þeir fundir sem ég hef setið með embættismönnum og nú síðast fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vegna málsins. Ég er þeirrar skoðunar að enn eigi eftir að láta reyna á það til fulls hvort okkur beri að veita tryggingarsjóði ríkisábyrgð. Sé það svo að við höfum ekki annan kost ber okkur skylda til að tryggja að við getum staðið við þær skuldbindingar sem við göngumst undir.

Ef ég skil málið rétt telja stjórnarliðar að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hafi í raun gefið spilið fyrir hrun í fyrra. Hæstv. viðskiptaráðherra sagði áðan að aðgerðaleysi forvera hans í starfi, hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, vorið 2008, þegar fjárplógsstarfsemi Landsbankans reis sem hæst, eigi stóran þátt í þeim vanda sem við erum í. Hann talaði meira að segja um mesta glannaskap Íslandssögunnar. Undir það tekur hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra, Árni Páll Árnason, sem vitnaði í ekki ómerkari mann en Jón Sigurðsson, fyrrverandi formann Framsóknarflokksins, máli sínu til stuðnings. Hann óskaði þess áðan að þingmenn Framsóknarflokksins tileinkuðu sér málflutning Jóns Sigurðssonar og tilgreindi sérstaklega nýleg skrif hans á Pressunni. Þar sem hæstv. ráðherra var greinilega umhugað að rifja upp orð Jóns Sigurðssonar tel ég rétt að gera það hér. Í greininni segir, með leyfi forseta:

„Aðalatriði Icesave-málsins er að skuldbindingar þrefölduðust á árinu 2008. Fjármálaeftirlitið fylgdist með og tók þátt í kynningarbæklingi Icesave vorið 2008.

Tilhögun málsins kom fyrst til kasta viðskiptaráðuneytisins í desember 2006. Þá barst erindi frá Landsbankanum um breytingar á reglum um greiðslur til innstæðutrygginga en sumir innstæðueigendur áttu ekki rétt á tryggingum. Niðurstaðan varð að þetta gæti ekki orðið án lagabreytingar. Samþykkt var að nefnd tæki málið til skoðunar og kom þetta í hlut nýs ráðherra að loknum kosningum 2007.

Athugun viðskiptaráðuneytisins um áramót 2006–2007 leiddi í ljós að allt var innan hæfilegra marka þá. Sagt var að starfsreglur Landsbankans gerðu alls ekki ráð fyrir að fé yrði flutt frá Bretlandi. Ljóst þótti að Fjármálaeftirlitið hefði alla burði, ráðrúm og tækifæri til aðgerða ef ofvöxtur hlypi í þetta miðað við hugsanlegar kröfur varðandi innstæðutryggingar.“

Það er athyglisvert að ráðherra Samfylkingarinnar skuli þannig, í gegnum fyrrverandi formann Framsóknarflokksins, varpa ábyrgð á Icesave-málinu af svo miklum þunga á samflokksmann sinn og formann þingflokksins, hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson. Það hefur verið upplýst að títtnefndur fyrrverandi viðskiptaráðherra ritaði a.m.k. tvö bréf til breska fjármálaráðuneytisins þar sem hann lofaði því að íslenska ríkið stæði við bakið á bönkunum. Þau bréf voru þannig þau fyrstu sem grófu undan stöðu okkar í samningunum við Breta og Hollendinga eftir hrun. Á grundvelli þeirra og minnisblaðs embættismanna í kjölfarið er því svo haldið fram að lagaleg staða okkar sé engin þó að á það hafi ekki verið látið reyna til fullnustu. Það vekur reyndar athygli að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson skuli ekki hafa kvatt sér hljóðs í þessari umræðu því að vafalítið gæti hann varpað ljósi á atburðarás síðustu 14 mánaða fyrir hrun þegar hann sat sem ráðherra bankamála og Fjármálaeftirlits. Það er þó ágætt að við skulum hafa svo greitt aðgengi að sjálfskipuðum erindreka Evrópusambandsins á Alþingi, hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra, því að í orðum hans í andsvörum áðan kristallaðist einmitt það ofríki Evrópusambandsins sem skín í gegn í þessu máli öllu.

Ég benti ráðherranum á að staða okkar væri nú þegar sú að Ísland getur ekki staðið undir þeim skuldbindingum sem reyna á að leggja á þjóðina með þessum samningi. Í áætlunum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í fyrrahaust kom fram að færu heildarskuldir okkar upp fyrir 240% réðum við ekki við að greiða þær. Sjóðurinn virðist að vísu hafa hækkað þau viðmið nú, svo að það passi kannski betur inn í módelið, eftir að í ljós hefur komið að skuldir okkar eru umtalsvert hærri eða einhvers staðar á bilinu 200–300% af landsframleiðslu. Það er því alveg ljóst að forsendur Icesave-samkomulagsins eru brostnar jafnvel áður en samningurinn er undirritaður. Ef marka má orð hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra, um að Bretum og Hollendingum sé umhugað um að við getum greitt skuldir okkar, ætti því að vera hægðarleikur að fá þá aftur að samningaborðinu með fulltingi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Nei, hæstv. félagsmálaráðherra segir að til þess þurfi að samþykkja samninginn fyrst og hæstv. fjármálaráðherra bætir um betur og segir að ekki verði við okkur rætt yfir höfuð.

Ef raunverulegur vilji er til að standa við eitthvert endurskoðunarákvæði í samningnum ætti að vera vilji til að setjast að samningaborðinu þegar nú er ljóst að forsendubrestur er orðinn. Orð hæstvirtra ráðherra gefa því miður ekki mikla von um að svo sé. Það er reyndar svo að þegar horft er til þess hversu gríðarlegt kapp þingmenn Samfylkingarinnar leggja á að samþykkja þetta frumvarp læðist að manni sá grunur að þeir geri sér alveg grein fyrir hvert stefni. Þeir sjá fram á að þar með opnist leið til að þröngva Evrópusambandsaðild upp á þjóðina hvað sem tautar og raular því að þá höfum við engan annan kost.

Skuldastaða ríkissjóðs er reyndar mun alvarlegri en svo að Icesave-samningurinn einn sé undir og skil ég vel áhyggjur hæstv. fjármálaráðherra hvað það varðar. Hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa lýst því yfir að staðan væri hins vegar ekki svo slæm. Þannig eru skuldir japanska ríkisins einnig mjög háar, og jafnvel töluvert hærri en okkar í augnablikinu, og enginn efast um getu þeirra til að borga. Það gleymist hins vegar alltaf í þeirri umræðu og þeim ábendingum að þær skuldir eru reyndar að mestu leyti í innlendri mynt og Japanir vel þekktir um allan heim fyrir það hversu duglegir þeir eru að spara pening og lána síðan öðrum sem eru minna duglegir að spara. Þar liggur einmitt hundurinn grafinn. Væri skuldin í íslenskum krónum eins og heimild er fyrir í lögum um innstæðutryggingarsjóð, 9. gr., ef einhver hérna skyldi ekki hafa kynnt sér hana, væri staðan strax betri. Almennt er talið að smá og minna þróuð hagkerfi standi ekki undir meiri erlendum skuldum en á bilinu um 40–60% af vergri landsframleiðslu. Það er innan við fjórðungur af skuldum okkar. Samt hafa hæstv. fjármála- og viðskiptaráðherra litlar áhyggjur af því að skrifa upp á 600–900 milljarða vegna Icesave og hafa talað um að við framsóknarmenn, sem höfum andmælt þessu, séum allt of svartsýn í ábendingum okkar.

Ég vil líka benda á það að ég sakna þess mjög að með greinargerð frumvarpsins skuli ekki fylgja greiðsluáætlun, eða greiðsluprófíll, sem er annað orð yfir þetta, yfir það hvernig við hyggjumst borga árlega afborganir og vexti fram til ársins 2023, eða jafnvel bara næstu 7 árin ef það er of erfitt að reikna okkur fram næstu 15 árin vegna mikillar óvissu. Með því mundum við gera okkur betur grein fyrir hvað við erum að leggja á þjóðina að 7 árum liðnum. Það eina sem kemur fram, í þeim gögnum sem ég hef kynnt mér um greiðsluáætlun, eru setningar eins og, með leyfi forseta, á bls. 23: „Engu að síður má reikna með að óhjákvæmilegt verði að endurfjármagna þessi lán að hluta“ — og þar er greinilega átt við erlend lán á gjalddaga og þar á meðal mjög stór lán sem eru á gjalddaga 2011. Einnig er bætt við að ekki sé reiknað með að greiða þurfi niður innlendar skuldir. Ekki er gert ráð fyrir því að greiða niður innlendar skuldir enda skilst mér, og það var útskýrt fyrir mér í dag, að enska hugtakið sustainability of debt, eða það að ráða við skuldir sínar, er að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ekkert endilega að borga niður skuldir sínar, aðeins að þær hækki ekki. Því mundi ég gjarnan vilja heyra frá hæstv. fjármálaráðherra, sem situr hér í hliðarsal, hvort almennt sé reiknað með að greiða niður skuldir eða höfuðstól þeirra lána sem við erum að tala um. Er gert ráð fyrir að greiða niður höfuðstól þeirra lána sem við höfum þegar tekið og þeirra lána sem við erum að fjalla hér um eða gerum við líka ráð fyrir því að endurfjármagna þetta.

The Economist bendir reyndar á að sú leið sem flestar þjóðir séu að fara í kreppunni sé að prenta peninga til að dæla inn í hagkerfið en ekki að skera velferðarkerfið niður við trog og hækka skatta ofan á allar aðrar byrðar almennings eins og íslensk stjórnvöld ætla að gera. Þá hafa vextir verið keyrðir niður í nágrannalöndum okkar til að reyna að koma hjólum atvinnulífsins aftur á hreyfingu. Í stað þess hafa komið lagasetningar hér á landi og áætlanir um að draga saman seglin einhvern tíma seinna.

Hvernig hyggst hæstv. ráðherra byggja upp hagvöxt hér á landi eða bara efla útflutning þannig að við fáum eitthvað af þessum gjaldeyristekjum sem við þurfum á að halda til að borga þessar skuldir? Það má því í raun segja að ríkisstjórn Íslands sé að gera allt öfugt við það sem önnur vestræn ríki eru að gera og þar með talið að skrifa upp á skuldbindingar sem óvíst er að við berum ábyrgð á og getum í öllu falli ekki staðið við. Í dag hafa þegar, að mig minnir, tveir þingmenn Vinstri grænna lýst áhyggjum sínum yfir að þjóðin sé á leið í greiðsluþrot með samþykki þessara samninga. Annar lýsti áhyggjum sínum í ræðustól og hinn í morgunútvarpi á Bylgjunni í morgun. Hæstv. heilbrigðisráðherra lýsti yfir, að ég held, þessum áhyggjum þó að hann mætti gjarnan orða þær yfirlýsingar sínar skýrar. Ég náði því einfaldlega ekki hvort hann var að biðla til stjórnarandstöðunnar um gott veður fyrir stjórnina felli hann samninginn, eða hreinlega bjóða henni til samstarfs í nýrri velferðar- og félagshyggjustjórn. En ég vil alla vega segja fyrir mína parta að hvort tveggja gæti hugnast mér svo framarlega sem hann fellir þetta frumvarp.