Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 19:44:51 (2524)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[19:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum sennilega eitt stærsta mál sem þetta þing og mörg önnur hafa rætt og mér þykir nokkuð miður að mælendalistinn er dálítið einsleitur. Það er mikið af stjórnarandstæðingum en lítið af stjórnarliðum og ég sakna sérstaklega, eins og fleiri, hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar sem var hæstv. viðskiptaráðherra þegar þeir atburðir gerðust sem við fjöllum um. Hann hefði getað upplýst ansi margt í þessari umræðu sem hefði komið þingmönnum að gagni. Svo hefði verið áhugavert að heyra í fleiri stjórnarliðum, sérstaklega Vinstri grænna vegna þess að þeir eru ekki alveg eins flokkshollir og stjórnarliðar hjá Samfylkingunni sem þurfa ekkert annað en trúarjátninguna til að lesa yfir. Ég hefði viljað heyra í mótmælendum hjá Vinstri grænum. Við erum búin að heyra í hæstv. ráðherra heilbrigðismála, Ögmundi Jónassyni. Það var mjög góð ræða og væri betra að fleiri tjáðu hug sinn um þetta mál. Mér finnst þetta vera svo stórt mál að hver einasti þingmaður ætti að tjá sig því að hann þarf að taka ákvörðun í samræmi við sína samvisku.

Hvað gerðist, frú forseti? Ef ég fer rétt aðeins í gegnum það þá dældust inn peningar til Íslands vegna þess að bæði voru peningar um allan heim á lágu verði, lágir vextir, mikið framboð, og á sama tíma mættu þessum peningastraumi ákaflega áhættuglaðir einstaklingar og bankar og fyrirtæki sem vildu fjárfesta út um allt og höfðu ekki lært mikið í líkindareikningi. Hér dældust inn svo miklir peningar að það er með ólíkindum. Það voru 40 milljónir á hvern Íslending. Hver fjögurra manna fjölskylda skuldaði 160 millj. þannig séð. Maður spyr sig: Hvað voru lánveitendur þessara peninga að hugsa? Hvað voru bankaráðin í þessum bönkum að spekúlera? Hvað voru stjórnir útrásarfyrirtækjanna að hugsa þegar þau keyptu fyrirtæki út og suður um alla Evrópu? Menn voru svo uppteknir af eigin snilld að þeir sáu ekki að þeir tóku gífurlegar áhættur. Ég minntist nokkru sinni á það þegar FL-Group keypti í amerísku flugfélagi var það óskaplega mikil áhætta fyrir íslenskt atvinnulíf, svo maður tali ekki um þegar þeir keyptu í þýskum banka sem heitir Commerzbank, einn stærsti banki Þýskalands. Þeir keyptu hvorki meira né minna en 3% í þeim banka og í tilkynningu til Kauphallar var tekið fram að ákvörðun um kaupin hafi verið tekin eftir ítarlega greiningu, frú forseti. Það segir að búið var að gefa jafnítarlega greiningu og á eignum Landsbankans núna sem við tölum um að veita ríkisábyrgð á. Ég kem að því seinna.

Svo hækkuðu vextirnir, áhættufælnin jókst og eignir lækkuðu í verði um allan heim. Þá varð stórtap og það er rangt sem margir halda fram að hægt sé að ná í þessa peninga. Það getur vel verið að einn og einn útrásaraðili hafi bjargað sínu fyrir horn en flestir eru þeir væntanlega gjaldþrota. Það er enga peninga að ná í vegna þess að peningarnir hurfu þar sem eignirnar lækkuðu í verði en lánin hækkuðu. Draumurinn um að ná í einhverja peninga til að borga þessara reikninga er bara draumur, held ég.

Þegar þetta gerðist datt mönnum snjallræði í hug og má segja að þessir menn séu ekki alslæmir, þeir duttu niður á Icesave. Fyrst þeir fengu ekki lán um allan heim með ótrúlegum kjörum náðu þeir í innlán, reyndar með háum vöxtum en það var betra en ekki neitt því að allt er hey í harðindum og það bætti lausafjárstöðuna. Þetta þótti mikil snilld og hækkuðu matsfyrirtæki meira að segja matið á þeim sem þetta gerðu vegna þess að þetta var svo mikil snilld. Velgengni þessara reikninga varð alveg yfirgengileg í Bretlandi og alveg sérstaklega í Hollandi. Ég veit ekki hvort menn hafa áttað sig á því að hollenskir reikningar voru ekki opnir nema í þrjá mánuði og þeir náðu yfir 100 þúsund aðilum til að leggja inn. Þeir voru reyndar með yfir 7% vexti á evrur sem þykir óskaplega gott, ég veit ekki hvort það var hærra en útlánsvextir í Hollandi en nálægt því. Þeir höluðu inn óhemjufé á örstuttum tíma og löguðu hjá sér lausafjárstöðuna þótt það dygði kannski skammt.

Eftirlitsstofnanir, Alþingi, fjölmiðlar, Fjármálaeftirlitið og matsfyrirtæki sváfu yfir þessari ógn og voru full aðdáunar á þessari miklu snilld og spurðu einskis. Matsfyrirtækin mátu bankana sífellt betur og betur. Innlánskerfi Evrópusambandsins er þess eðlis að þar er meiningin — ég hef lesið tilskipunina — að innlánsfyrirtækin sjálf, bankarnir sjálfir, borgi innlánstrygginguna. Það er grundvallarhugsunin og átti að mynda innlánstryggingarsjóð og það gerðu Íslendingar sem betur fer með „bravör“, algerlega eftir reglunum. Bretarnir voru víst ekki alveg búnir að gera það en það voru Íslendingar og var borgað inn 0,15% af innlánum. Hafði myndast sjóður upp á 18 milljarða en hann var til að tryggja miklu stærri upphæðir. Bara þessir Icesave-reikningar eru upp á 1.100 milljarða eða jafnvel meira þannig að innlánstryggingarsjóður getur dugað fyrir 3% af tjóninu.

Áður en ég held lengra ætla ég að leggja til að við Íslendingar lærum af þessu. Við þurfum að læra af þessu, t.d. það að þegar maður kastar upp tening kemur sexan alltaf öðru hverju upp. Það er bara þannig og menn þurfa að læra að taka ekki áhættu, hætta að segja: Þetta reddast. Það þarf að útrýma því orðasambandi úr íslensku: Þetta reddast. Það reddast nefnilega ekki nema einstaka sinnum ef maður getur bætt við sig meiri vinnu eða eitthvað slíkt og tekjurnar aukast og allt svoleiðis. En yfirleitt þegar menn segja „þetta reddast“ er það vegna þess að þeir eru komnir í ómögulega stöðu. Mér sýnist að útrásarfyrirtæki, bankarnir, fjármálafyrirtæki, Fjármálaeftirlitið og allir hafi haft þetta að leiðarljósi, „þetta reddast“, og mér sýnist að samningurinn sem við ræðum í dag hafi það líka að leiðarljósi, því miður.

Svo hrynur kerfið á Íslandi. Þá gerist það um leið að bresk og hollensk stjórnvöld bregðast strax við. Það má segja gott um þau að þau brugðust strax við og sögðu: Þetta má ekki fréttast vegna þess að þetta er galli í regluverki Evrópusambandsins. Þegar heilt kerfi hrynur getur innlánstryggingakerfið ekki greitt það hvort sem það mundi gerast í Hollandi, Bretlandi, á Íslandi eða annars staðar. Innlánstryggingakerfið gæti ekki borgað það, alls ekki í Hollandi og síst af öllu í Bretlandi þannig að til þess að hinn venjulegi sparigreiðandi um alla Evrópu frétti þetta ekki ákváðu stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi að láta skattgreiðendur greiða þetta og takið eftir: Það var tekin ákvörðun um það af breskum og hollenskum yfirvöldum að láta skattgreiðendur greiða þetta í staðinn fyrir innlánsstofnanirnar. Það er stefnubreyting sem hefði átt að valda því að félög skattgreiðenda um alla Evrópu rísa upp á afturlappirnar. Ég talaði meira að segja við formann Félags þýskra skattgreiðenda en hann kveikti aldeilis ekki á þessu. Þarna var gerð stefnubreyting og það er ákvörðun sem við glímum við í dag.

Ótti ráðamanna í Hollandi og Bretlandi um „run“ á bankana veldur hörku þeirra gagnvart Íslandi. Þetta er engin mannvonska. Þetta er ótti þeirra og skelfing. Þeir verða að sýna að Ísland borgi eins og þeir. Það eru fjórir flokkar af innlánseigendum: Í fyrsta lagi þeir sem eru undir 20.887 evrum. Þá tryggir íslenski innlánstryggingarsjóðurinn með sínum 18 milljörðum. Svo eru það þeir sem eru yfir þessum mörkum í Hollandi með allt að 90 þúsund evrur. Það tryggja hollenskir skattgreiðendur með ákvörðun hollensku ríkisstjórnarinnar. Allt í Bretlandi er tryggt nema þar sem fagfjárfestar eru, sveitarfélög og aðrir slíkir. Breskir skattgreiðendur tryggja þá sem ekki eru fagfjárfestar og eru yfir mörkunum, 20.887 evrum. Þeir sem eru yfir mörkunum í Hollandi og fagfjárfestar í Bretlandi sækja sinn rétt sjálfir, þeir eru ekki tryggðir nema að því er varðar 20.887 evrurnar sem Íslendingar tryggja. Þetta eru þeir fjórir hópar sem hafa greitt fyrir þetta og um það stendur deilan.

Sá samningur sem við ræðum hér er í fyrsta lagi svokölluð Landsbankaleið. Menn héldu að það væri sniðugt að láta Landsbankann taka lán og síðan eftir 7 ár kæmi ríkisábyrgðin til. Auðvitað er ríkisábyrgð á þessu öllu saman alveg frá byrjun vegna þess að ef einhver greiðsla klikkar núna hækka skuldirnar bara sem því nemur í lok sjö ára tímabilsins ásamt vöxtum. Það er þá ríkisábyrgð á því eins og á öllum heila pakkanum. Svo er talað fjálglega um einhverja Landsbankaleið — ég vil ekki kalla það heimsku en allt að því.

Svo eru notaðir Cirr-vextir. Cirr-vextir eru vextir til útflutningsfyrirtækja í viðkomandi löndum sem er eðlilegt ef Landsbankinn skuldar einhverjum að veita einkafyrirtæki svona vexti en það er fráleitt að ríkið borgi svoleiðis vexti. Ef þeir eru notaðir ættu breska og hollenska ríkið að borga íslenska ríkinu ríkisábyrgðargjald fyrir að veita ríkisábyrgð á allan pakkann. Þá ætti í rauninni hollenska og breska ríkisstjórnin að borga Íslendingum ríkisábyrgðargjald upp á 2–3%. Ég veit ekki til að það hafi verið rætt því að íslenska ríkið — við erum að taka ákvörðun um að veita ábyrgð á allan pakkann.

Svo er þetta kúlulán. Það er talað um sjö ára tímabil. Þar er sama hugsunin: Þetta reddast. Ef ég kaupi bíl með láni sem ég borga eftir tíu ár breytir það engu. Ég þarf að borga það hvort sem er. Þetta er svo furðuleg hugsun að ég næ henni ekki. Svo vil ég geta um eitt: Í fylgiskjali með þessu er dálítið merkilegt frá hollenska ríkinu, við eigum að borga 7 millj. evra fyrir kostnað þeirra af þessu tagi. Niðurlægingin er þvílík að þeir láta okkur borga 7 millj. evra fyrir að standa í þessu bixi og veseni. Hvað skyldu þeir borga okkur fyrir að standa í okkar bixi og veseni sem er miklu meira? Ekki krónu. Þetta sýnir afstöðu og skilninginn. Það eru þeir sem tóku ákvörðun um að láta skattgreiðendur greiða þetta.

Svo er það spurningin um mat á eignum Landsbankans og það er aðalmálið. Því miður er tími minn að verða búinn, frú forseti, þannig að ég verð að setja mig aftur á mælendaskrá til að ræða um matið á eignum Landsbankans. Það er aðalmálið. Hér talar hæstv. viðskiptaráðherra eins og meðaltalið sé sú greiðsla sem hann fær. Það er ekki aldeilis svo. Meðaltalið af því þegar maður hendir upp tening er 3,5. Prófið það. Gerið það nógu oft. Þið munuð enda á því meðaltali, 3,5. Stærðfræðin segir það, líkindafræðin segir það en stundum kemur upp 6 og stundum kemur upp 1 og hér er verið að kasta upp á það. Kannski fáum við einn og kannski fáum við 6 og allt er greitt. Auðvitað verða þingmenn sem taka ákvörðun um svona peningaspil að vita hvað miklar líkur eru á því að ekki greiðist nema 30%. Það ætla ég að koma inn á í seinni ræðu minni. En svo þarf líka að vita: Hefur þetta áhrif á lánshæfismatið. Menn hafa fullyrt að samningurinn hafi engin áhrif á lánshæfismatið af því að menn hafi vitað að það ætti eftir að semja. Bíðum nú við, skiptir það engu máli hvernig menn sömdu? Ef menn hefðu samið um hámark á greiðsluna ætli lánsfjárfyrirtækin hefðu ekki verið kátari en þegar samið er um nánast fullar kröfur Hollendinga og Breta? Þannig var samningurinn. Við hefðu getað skrifað undir þennan samning strax í haust. Vextirnir hafa reyndar lækkað en það hafa þeir líka gert á heimsmarkaði. Auðvitað skiptir máli fyrir matsfyrirtæki hvernig samið var og hámark á greiðslunum mundu aldeilis gleðja þau og gefa Íslendingum hærra mat en því miður er tími minn búinn.