Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 20:03:15 (2527)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:03]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er eðlilegt að spurt sé: Á hverju á þjóðin að lifa? Sérstaklega þegar ég fæ mjög takmörkuð svör við þeim spurningum sem ég hef lagt fram í þessari umræðu. Að stjórnarliðar láti þessa umræðu næstum fram hjá sér fara — þeir sitja ekki hér í þingsal nema annað slagið — er algjörlega til skammar í ljósi umfangs þessa máls, í ljósi þeirrar kröfu sem er úti í samfélaginu um að Alþingi vandi hér til verka.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi það hér að íslenska sendinefndin eða hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon hefði samþykkt að við ættum að borga kostnað Hollendinga vegna þessara viðræðna, ef ég skildi hv. þingmann rétt. Nú hljómar það ekki sem há upphæð, sjö milljónir evra, sem litla Ísland þarf þá að borga fyrir tilkostnað Hollendinganna en miðað við núverandi gengi erum við að ræða þar um 1.300–1.400 milljónir króna, 1,3–1,4 milljarða. Maður veltir því fyrir sér þegar við tölum um sams konar upphæð og verið er að skerða íslenska námsmenn um á þessu sumarþingi, um 1.300 milljónir, hvar harka íslenskra stjórnvalda er. Hvar er sjálfsvirðingin? Með hvað var lagt af stað í þessar viðræður?

Það er ósköp eðlilegt að spurt sé og að sumir hverjir verði jafnvel lúpulegir undir þessari umræðu. Mér finnst það algjörlega ótækt, um leið og ég ítreka þessa spurningu hvort ég hafi skilið hv. þingmann rétt, að stjórnarliðar skuli ekki sitja hér í salnum undir þessari umræðu, kveðja sér hljóðs og reyna að rökstyðja af hverju þeir vilja að við skrifum undir þetta samkomulag. Það er algjörlega ótækt í ljósi þess að ríkisstjórnin ætlar sér að láta Íslendinga, íslenskan almenning, greiða þennan Icesave-samning, þessa óhæfu sem búið er að skrifa undir, sem við munum vonandi fella hér á vettvangi þingsins. En það verður ekki mörgum stjórnarliðum að þakka í ljósi umræðunnar hér, (Forseti hringir.) alla vega í þeirri fyrstu, því að þátttakan hefur verið smánarlega lítil af þeirra hálfu.