Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 20:05:31 (2528)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta fann ég á island.is í skjölum sem fylgja þar með á ensku og er bréf „from the State of The Netherlands“, þ.e. frá hollenska ríkinu.

Þar stendur í lið 3b að borga eigi 7 milljónir evra fyrir kostnaði. Það bætast við 1.322 milljónir, þ.e. þessi gífurlega tala hefur ekki áhrif nema á fjórða aukastaf. Það segir okkur hvað skuldbindingin er ofboðslega stór, að þetta skuli ekki hafa áhrif fyrr en á fjórða aukastaf, einn og hálfur milljarður. Ég hugsa að Hollendingum finnist þetta ekki sérstaklega merkileg eða stór upphæð en fyrir Íslendinga er þetta náttúrlega mjög stór tala. Og það sem er kannski verst í þessari tölu, þessum 7 milljónum sem við munum borga fyrir þennan kostnað, er niðurlægingin sem felst í því að íslensk sendinefnd fellst á það að borga Hollendingum fyrir ómakið, að leggja á okkur þessar kvaðir.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði einhvern tíma í haust að hann þyrfti að kyssa á vöndinn hjá kvalaranum eða einhvern veginn þannig. Hér kyssa menn virkilega á vöndinn, það er bara þannig. Það er virkilega verið að niðurlægja okkur Íslendinga með því að láta okkur borga 7 milljónir evra, þó að það sé á þriðja aukastaf, fyrir umstangið sem Hollendingar verða fyrir. Þeir velta ekkert fyrir sér hvílíku óskapaumstangi það veldur á Íslandi og hvað þetta á eftir að kosta íslenska þjóð um alla framtíð í fátækt og armæðu og barlómi.

Hver skyldi kostnaður Íslendinga vera? Það er ekki horft á það. Nei, Íslendingar eiga að borga 7 milljónir evra fyrir þá ákvörðun hollenskra yfirvalda að viðhalda trausti manna á hollenska banka.