Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 20:41:40 (2540)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:41]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Yfirlýsingar nokkurra íslenskra hæstv. ráðherra í þessum efnum eru með ólíkindum af því að þeir eru ekki málsvarar Íslands þar eins og hv. þingmaður vék að í andsvari sínu. Þeir eru ekki málsvarar Íslendinga, þeir eru málsvarar hagsmuna sem eru sprottnir frá stórveldunum Frakklandi, Hollandi, Bretlandi, Þýskalandi og fleiri Evrópuríkjum sem hafa alla tíð fyrst og fremst hugsað um sjálfa sig.

Að mörgu leyti mundi ég treysta Rússum betur í samningum en þessum þjóðum. Maður veit þó hvar maður hefur þá en það er ekki í þessum efnum. Það er skelfilegt og til skammar fyrir Íslendinga að þurfa að hlusta á annars ágæta hæstv. ráðherra falla svona á hnén og lúta í mold. Íslendingar eru vanastir því að vera huggulegir diplómatar — kurteisir og huggulegir, eins og Danirnir orða það — penir. Það á bara ekki við þegar það snýr að sjálfstæði Íslands. Það eru mörg mál á alþjóðavettvangi sem eru meira og minna tengd við hégóma og sýndarmennsku. Þetta er dauðans alvörumál sem skiptir öllu máli fyrir íslenska þjóð. Það er munurinn. Menn geta farið í partý og úr partýi og svo er það búið. Það skilur svo sem ekkert eftir en þetta er ekki partý, þetta er sláturhús og þar þurfum við að stoppa.