Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 21:00:49 (2544)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:00]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hv. þingmaður á sæti í forsætisnefnd Alþingis og að lokinni þessari umræðu er málið komið í þinglega meðferð. Það er þá komið úr höndum hæstv. fjármálaráðherra og munu 63 þingmenn ákvarða um lyktir þessa máls sem betur fer.

Nú er ljóst að trúlega mun minni hluti nefndarinnar í fjárlaganefnd óska eftir því að við fáum álit sérfræðinga á sviði fjármála, sérfræðinga á sviði lögfræði á þessum gjörningi, hvort hún muni í störfum sínum innan forsætisnefndar reyna að leggja á það áherslu að Alþingi fái fjárhagslegt svigrúm til að leita til okkar færustu sérfræðinga til að meta þennan samning. Eins og ég sagði áðan, nú er málið komið til þingsins. Við höfum mjög litaða greinargerð frá hæstv. ríkisstjórn um þennan „glæsta“ samning og þann „glæsta“ árangur sem ríkisstjórnin náði.

Nú er málið komið í hendur Alþingis Íslendinga og ég spyr hv. þingmann sem á sæti í forsætisnefndinni hvort hún muni beita sér sem einn nefndarmaður í forsætisnefnd fyrir því að forsætisnefnd leggi til fjármuni við fjárlaganefnd að við getum farið í mjög ítarlega vinnu við skoðun á þessum samningi. Hér er um stærstu skuldbindingar í lýðveldissögunni að ræða og okkur þingmönnum ber skylda til að fara ítarlega yfir samninginn. Því er sjálfsagt að nefndir þingsins, fjárlaganefnd í þessu tilviki, fái mjög mikið svigrúm til að skoða málið frá öllum hliðum. Því spyr ég hv. þingmann að þessu.