Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 02. júlí 2009, kl. 21:05:11 (2547)


137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:05]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það kom ýmislegt fróðlegt fram í ræðu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur. Til að mynda voru vangaveltur þingmannsins um Heritable-bankann og áhrifin af því sem þar er að koma í ljós mjög áhugaverð. Þess vegna er synd að hæstv. fjármálaráðherra skuli hafa ákveðið að hverfa frá því að svara því sem spurt var um, til að mynda varðandi beitingu hryðjuverkalaganna og hvers vegna ekki var tekið tillit til þess gríðarlega skaða sem Íslendingar urðu fyrir af þeirra völdum. Það hefði verið fróðlegt að heyra hæstv. fjármálaráðherra velta aðeins fyrir sér þeirri spurningu.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir nefndi dugnað hæstv. fjármálaráðherra. Ég hef því áhuga á að spyrja hv. þingmann hvort hún gæti ekki tekið undir það með mér, ekki hvað síst í framhaldi af þeim ótrúlega spuna sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson upplýsti okkur um áðan að hefði farið fram í fréttum í kvöld, að verði Icesave-samkomulaginu hafnað falli ríkisstjórnin þar með og boðað verði til kosninga og ég veit ekki hvað og hvað. Getur hv. þingmaður ekki tekið undir það með mér að falli Icesave-samkomulagið muni stjórnarandstaðan veita þessum duglega hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórninni stuðning í því sem í hönd fer? Að hún muni aðstoða þessa ríkisstjórn miklu frekar en hitt við að taka á þeirri stöðu sem þá verður upp komin, halda áfram viðræðum, kynna málstað Íslendinga o.s.frv., að áhyggjur og áróður eins og sá sem birtist í fréttum Stöðvar 2 í kvöld sé fullkomlega ástæðulaus?