Embætti sérstaks saksóknara og meðferð sakamála

Föstudaginn 03. júlí 2009, kl. 11:54:58 (2586)


137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

embætti sérstaks saksóknara og rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

138. mál
[11:54]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. dómsmálaráðherra Rögnu Árnadóttur fyrir framsögu um þetta gríðarlega mikilvæga mál sem við ræðum nú. Ég tel að í þessu frumvarpi felist mjög mikilvæg skilaboð frá þingi til þjóðar um að við ætlum að taka þessi mál er snerta rannsóknina á bankahruninu mjög föstum tökum. Það má rifja það upp í þessu samhengi að ég hygg að það sé um mánuður síðan sú sem hér stendur spurði hæstv. forsætisráðherra út í ummæli Evu Joly í Kastljósi þar sem hún gagnrýndi m.a. rannsóknina og taldi að bæta þyrfti bæði í mannafla og fé. Hæstv. forsætisráðherra tók mjög vel í málaleitan mína í þingsal þegar spurt var um þetta og hæstv. dómsmálaráðherra hefur einnig gert það.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mikilvæga mál enda er hér um 1. umr. að ræða. Málið fer nú til hv. allsherjarnefndar og við munum væntanlega fjalla um það þar. Ég vil líka segja í þessu samhengi að það eru gríðarlega mikilvæg skilaboð sem þingið sendir hér varðandi styrkingu á embætti saksóknara og sérstaks saksóknara. Auðvitað hangir þessi vinna saman við þá vinnu sem rannsóknarnefnd Alþingis er að vinna núna á orsökum og afleiðingum bankahrunsins og ég hygg að með haustinu — ef ég man rétt á sú nefnd að skila af sér 1. nóvember — eigi myndin af því sem gerðist að vera farin að skýrast bæði fyrir þingi og þjóð, af hverju það gerðist og hvaða lærdóm getum við dregið af því sem gerðist í aðdraganda bankahrunsins.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mikið fleiri að þessu sinni en þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja fram þetta gríðarlega mikilvæga mál. Ég vonast til að það fái efnislega vandaða umfjöllun í nefndinni og við náum að hraða meðferð þess þar. Það er mjög mikilvægt að þetta mál verði afgreitt í sumar þannig að Eva Joly og hennar fólk geti hafist handa með allan þann mannafla og allt það fé sem hún telur sig þurfa við að sinna þessari rannsókn svo sómi sé að.