Embætti sérstaks saksóknara og meðferð sakamála

Föstudaginn 03. júlí 2009, kl. 11:59:36 (2588)


137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

embætti sérstaks saksóknara og rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

138. mál
[11:59]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um embætti sérstaks saksóknara. Þetta er mjög tímabært og þarft frumvarp og brýnt er að það nái fram að ganga á þingi sem allra fyrst. Ég mun leggja mitt af mörkum í allsherjarnefnd til að svo geti orðið og frumvarpið verði að lögum áður en þingið fer heim í þinghlé, hvenær sem það svo verður.

Framsaga hæstv. dómsmálaráðherra var greinargóð og skilmerkileg og ég get tekið undir hana. Það er öllum ljóst nú að embættið, eins og það er mannað í dag, ræður ekki við þau risavöxnu verkefni sem þegar eru komin upp á borð hjá því og eiga svo sannarlega eftir að koma upp á borð hjá hinum sérstaka ríkissaksóknara. Það er risavaxið verkefni að fletta ofan af því sem ég kalla glæpastarfsemi íslensku útrásarvíkinganna og láta þá svara til saka og láta þá svara fyrir verk sín með þeim eignum sem þeir hafa komið undan sannanlega í formi arðgreiðslna, kaupréttarsamninga og annarra myrkraverka í skjóli loftbólu- og froðustarfsemi þeirra undanfarin ár. Því miður hafa jafnvel mál dregist á langinn og mál sem að baki liggur afar sterkur rökstuddur grunur hafa ekki komist af stað. Því er afar brýnt að efla embættið með öllum ráðum og ég hvet þingheim til að leggja því lið að þetta mál fái sem hraðastan framgang.

Tvennt vil ég að nefndin skoði sérstaklega og hæstv. dómsmálaráðherra vék að því. Það er skipulag embættisins. Það er verið að skipa þrjá nýja saksóknara og hver þeirra er sjálfstæður. Hingað til höfum við byggt á píramídaskipan í slíkum embættum og nú erum við að búa til fjóra sjálfstæða saksóknara nánast eins og ég skil uppleggið og nefndin þarf auðvitað að skoða hvort það kunni að leiða til núnings innan embættisins eða ekki. Að því þarf nefndin að huga sérstaklega. Fyrirmyndin er norsk og virðist hafa reynst ágæta vel þar.

Ég set líka spurningarmerki við það að skipa sérstakan ríkissaksóknara. Ég vil skoða það sérstaklega. Ég velti því fyrir mér hvort hægt sé að fara leiðir sem séu hugsanlega hagkvæmari og skilvirkari í þeim efnum. Þar koma tvær aðrar leiðir til greina. Önnur er sú að hinn sérstaki saksóknari fái hlutverk ríkissaksóknara í sínum málum. Það kann að verða í því máli skörun við þann ríkissaksóknara sem fyrir er. En ég hygg að það kunni að verða í afar fáum tilvikum og ég hygg að það sé umhugsunarefni hvort dómsmálaráðherra geti þá ekki skorið úr því ef um skörun verður að ræða. Auðvitað á Hæstiréttur svo síðasta orðið ef rannsakendum eða framkvæmdarvaldinu verður á í þeim efnum.

Önnur leið er til skoðunar í þessum efnum. Það var leitað þeirrar leiðar að skipa ríkissaksóknara ad hoc í öllum þessum málum og í ljós kom að til þess skorti lagaheimild. Var því horfið frá því. En það er alveg í stöðunni líka að breyta 25. gr. sakamálalaganna þannig að sú heimild verði til staðar og sú braut verði fetuð sem var fyrst hugsuð í þessu máli. Þetta þarf allsherjarnefnd að skoða og getur vonandi gert það hratt og örugglega og ég mun leggja mitt af mörkum við það.

Ég vil að lokum endurtaka þakkir mínar til hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að koma með þetta frumvarp fram í dag.