Embætti sérstaks saksóknara og meðferð sakamála

Föstudaginn 03. júlí 2009, kl. 12:04:33 (2589)


137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

embætti sérstaks saksóknara og rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

138. mál
[12:04]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að segja að ég held að það sé afar brýnt að á þeirri rannsókn sem í gangi er vegna þess hruns sem varð í haust sé haldið af mikilli festu og að menn leggi sig fram um það að vinna hana eins hratt og kostur er þótt það sé alveg ljóst að þegar um svo flókin mál er að ræða sé óumflýjanlegt að hlutirnir taki lengri tíma en menn kannski vilja. Þjóðfélagið er órólegt yfir því hvað hlutirnir geta gengið hægt en þannig er það með rannsókn af þessum toga, flókin málsatvik, flókna hluti. Þetta tekur ákveðinn tíma. En það sem við verðum að gera er að leggja okkar af mörkum til þess að hún geti þó orðið eins hröð og hægt er. Það gerum við að sjálfsögðu með því að veita þeim embættum sem með þessi mál fara þær heimildir sem þau þurfa á að halda. Í haust þegar það skref var tekið að stofna til embættis sérstaks saksóknara kom það fram í vinnu hv. allsherjarnefndar að ekki væri ótrúlegt að embættið þyrfti meiri styrkingu, þyrfti meira fé en veitt var til þess í upphafinu, menn væru að stíga fyrstu skrefin í þessu og það hefði komið í ljós að styrkja þyrfti þetta embætti. Sjálfstæðisflokkurinn mun auðvitað styðja það að svo verði gert og það frumvarp sem hér er á ferðinni er til þess fallið að styrkja embætti sérstaks saksóknara. En á sama tíma er ástæða til að stoppa aðeins við þau atriði sem hv. þingmaður Atli Gíslason vék að í sínu máli, þ.e. hvernig valdmörk milli stofnana geta orðið þegar um er að ræða embætti af þessum toga. Um leið og ég legg áherslu á að við munum styðja þetta mál í hv. allsherjarnefnd, framgang þess og að það gangi sæmilega hratt fyrir sig, þá held ég að ástæða sé til þess að skoða það rækilega hvernig þetta skarast við önnur embætti, aðrar rannsóknir. Það kom fram í haust þegar við fjölluðum um rannsóknarnefnd þingsins og ýmis atvik þar að fletir voru á því máli sem geta skarast eða valdið misskilningi á milli þeirrar nefndar og embættis sérstaks saksóknara. Þetta þarf að vera í eins miklu lagi og hægt er til að þessi rannsókn verði hafin yfir allan vafa.

Stærsti vandinn í þessu landi er sá nú um þessar mundir hversu fá við erum og hversu tengd mörg okkar eru og raunar öll út um allt þjóðfélag. Maður þekkir mann sem þekkir mann. Því var ekki auðvelt í verki í haust að finna og ráða sérstakan saksóknara. Það var töluvert erfitt að finna mann sem var ekki vanhæfur með einhverjum hætti. Nú er ríkissaksóknari eins og við þekkjum vanhæfur á ákveðnum sviðum og hefur sagt sig frá máli sem varða bankahrunið vegna stöðu sonar hans. Í þessum efnum mun væntanlega verða áframhald á því að það verður ekki auðvelt verk fyrir hæstv. dómsmálaráðherra að ráða þá saksóknara sem til viðbótar þurfi að vera og finna menn sem eru hafnir yfir þann vafa sem er uppi í þessu þjóðfélagi vegna þess að ég held ekki að nokkurn tíma hafi verið jafnmikil tortryggni á Íslandi um þau verk sem unnin eru og það er afar auðvelt að kasta rýrð á það sem gert er ef minnsti grunur eða ótti er um óeðlileg tengsl. Ég held að þetta sé kannski það vandasamasta og ég held að það sé kannski þess vegna sem margir hafa verið á þeirri skoðun að það hefði verið ástæða til að leita meira erlendis til ráðgjafar um ýmsa þætti. Glöggt er gests augað eins og við þekkjum og einnig erum við þá náttúrlega ekki með nein tengsl inn í íslenskt samfélag. En í þessum verkefnum verða íslenskir lögfræðingar að sinna þessu máli. Það er nú þannig í þessu réttarríki hér.

Ég vil bara fyrir hönd okkar fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd ítreka að við erum jákvæð gagnvart þessu máli og munum vinna því framgang í nefndinni ásamt öðrum nefndarmönnum en þó þannig að farið verði vandlega yfir þau álitamál sem uppi eru og þá fleti sem hugsanlega geta orðið til þess að valda vandræðum milli þeirra stofnana sem við höfum þegar sett af stað hvort sem þær eru tímabundnar eða hugsaðar til lengri tíma.