Embætti sérstaks saksóknara og meðferð sakamála

Föstudaginn 03. júlí 2009, kl. 12:09:41 (2590)


137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

embætti sérstaks saksóknara og rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

138. mál
[12:09]
Horfa

Valgeir Skagfjörð (Bhr):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. dómsmálaráðherra Rögnu Árnadóttur fyrir þetta frumvarp. Málið er mjög mikilvægt og það var eitt plássfrekasta málið í stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar að trúverðug rannsókn færi fram á bankahruninu og við feitletruðum trúverðug rannsókn.

Nú er það svo eins og hv. þm. Ólöf Nordal benti á að frændsemisnetið er afskaplega þétt riðið í þessu landi og það mun koma að því þegar líður á þessa rannsókn að fólk verður spurt og fólk verður innt eftir upplýsingum sem tengjast því fólki sem að þessu máli koma. Það er óhjákvæmilegt. Það er bara þannig.

En mig langar að nota tækifærið og þakka fyrir þetta. Það er afskaplega mikilvægt að héðan komi skýr skilaboð frá hinu háa Alþingi út í samfélagið um að verið sé að setja kraft í þessa rannsókn. Auðvitað væri æskilegt að fá fleira fólk inn í þetta og við eigum ekki að sjá á eftir einni einustu krónu sem þetta kemur til með að kosta því þetta er mjög mikilvægt fyrir þjóðina. Þá er ég ekki að tala um í peningalegu tilliti. Ég er ekki að tala um það.

Mig langar hins vegar að beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmálaráðherra Rögnu Árnadóttur hvort hún telji það kost að hægt verði að leita til stofnana eins og Serious Fraud Office í Englandi sem hefur aðstoðað aðra. Ef þeir geta aðstoðað Bandaríkjamenn við að rannsaka mál ætti þá nokkuð að vera því til fyrirstöðu að þeir aðstoðuðu okkur við okkar mál einmitt í ljósi þess hve tengslin eru náin í okkar landi?