Embætti sérstaks saksóknara og meðferð sakamála

Föstudaginn 03. júlí 2009, kl. 12:11:53 (2591)


137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

embætti sérstaks saksóknara og rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

138. mál
[12:11]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir undirtektirnar við þetta frumvarp. Ég ætla að svara nokkrum spurningum sem að mér var beint. Hvað varðar rekstraráætlun fyrir embættið og skipulag þess þá kom hinn erlendi ráðgjafi með ákveðnar hugmyndir og hinn sérstaki saksóknari tók undir þær þannig að það er samvinna milli ráðuneytisins og embættisins í því að útfæra hugmyndir um styrkingu embættisins. Sú tala sem ég nefndi byggir í raun á því að auk hins sérstaka saksóknara verða þrír sjálfstæðir saksóknarar, fjórtán lögfræðingar, tólf lögreglumenn og sérfræðingar, fjórir löggiltir endurskoðendur og tveir aðrir starfsmenn. Síðan þarf líka að kaupa ráðgjafarþjónustu þannig að við endum í drögum í tæpum 490 milljónum. En eins og ég segi þá er það ekki fyrr en Alþingi hefur sagt sitt álit á þessu að raunverulega verður hægt að koma með ákveðið skipulag og nýtt skipurit fyrir embættið. En við erum tilbúin með ákveðnar hugmyndir í því sambandi.

Síðan voru nefndir þessir möguleikar á því hvort skipa ætti sérstakan ríkissaksóknara eða hvort leita ætti annarra leiða. Það kemur fram í athugasemdum við frumvarpið að ráðuneytið óskaði eftir því við réttarfarsnefnd að hún gerði tillögu til breytinga á lögunum sem miðaði að því að finna lausn á þessum vanda að ríkissaksóknari hefði sagt sig frá málaflokknum í heild. Réttarfarsnefnd taldi það vera bestu leiðina að hinn sérstaki saksóknari lyti ekki eftirlitsvaldi ríkissaksóknara heldur væri algerlega sjálfstæður og færi þá eða eins og nefnt var hér áðan að fundnar yrðu ákveðnar leiðir við að skera úr um valdmörk þegar til þess kæmi.

Ég taldi að það væri ankannalegt að þetta málefnasvið, þessi málaflokkur lyti ekki eftirlitsvaldi ríkissaksóknara einn málaflokka og mér finnst það ekki ríma við mikilvægi þessara mála og þann forgang sem þessi rannsókn er sett í. Hins vegar er þetta álitamál og ég treysti að sjálfsögðu allsherjarnefnd til að ræða þetta og komast að skynsamlegri niðurstöðu hver svo sem mín skoðun er á þessu máli. Þetta eru ákveðnar kostir í stöðunni, einnig sá kostur sem nefndur var áðan. Hv. þm. Atli Gíslason nefndi að hægt væri að breyta sakamálalögunum sem yrði þá almenn breyting og það fer kannski betur á því. En þetta allt þyrfti nefndin að ræða.

Það eru vitaskuld gallar á því að hafa tvo ríkissaksóknara í þessu landi og gallinn á þeirri tillögu sem ég flyt er að þar eru tveir ríkissaksóknarar. En ég hef hins vegar sagt að það undirstriki einmitt sérstöðu þessa málaflokks að hafa þetta með þessum hætti. En eins og ég segi þá er þetta nokkuð sem þarf að ræða.

Hvað varðar valdmörk á milli stofnana — hér kom fram sá ágætis punktur áðan að rannsókn vegna bankahrunsins fer fram á mörgum stöðum. Hún fer fram hjá rannsóknarnefnd Alþingis. Svo er hinn sérstaki saksóknari, það er Fjármálaeftirlitið, skattrannsóknarstjóri. Þessi rannsókn fer fram á mörgum stöðum. Auk þess höfum við sérfræðinga í efnahagsbrotum í efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Ég hef velt því fyrir mér hvort ekki væri ráð að ef ekki bara sameina þessar deildir, sérstakan saksóknara og efnahagsbrotadeildir, að þá gætu þær að minnsta kosti starfað hlið við hlið í sama húsnæði jafnvel þannig að menn gætu nýtt þarna ákveðna sérþekkingu. Það er kannski málefni sem allsherjarnefnd gæti rætt eða við gætum rætt í framtíðinni en tíminn hefur verið of knappur til að fjalla um það núna.

Hvað varðar það að finna saksóknara þá finnst mér það vera samfélagsleg ábyrgð lögfræðinga að skoða hvort þeir ættu ekki að sækja um að starfa hjá embætti sérstaks saksóknara, ég tala nú ekki um ef þeir hafa reynslu af saksókn. Þá eiga þeir að athuga það með sjálfum sér hvort þeir séu ekki akkúrat mennirnir eða konurnar til að sækja um þessi störf. Hér með skora ég á lögfræðinga landsins að athuga þetta mjög vandlega því ég veit að margir hér á landi eru mjög hæfir í lögfræði og hafa margt til málanna að leggja. Nú er tækifærið.

Síðan hvað varðar það sem hv. þm. Valgeir Skagfjörð nefndi um að hægt sé að leita til erlendra stofnana þá tel ég alþjóðlega samvinnu brýna á þessu sviði og að auka hana. Á norrænum dómsmálaráðherrafundi sem haldinn var núna í byrjun þessarar viku fólum við efnahagsbrotadeildunum hinum norrænu sem funda nú í ágúst einmitt að ræða þetta mál sín á milli á norrænum vettvangi, hvort ekki sé unnt að auka þarna samvinnuna og samstarf á milli. Þetta á að sjálfsögðu við líka um aðrar eftirlits- og rannsóknastofnanir sem ekki eru á Norðurlöndum heldur líka annars staðar í Evrópu og ég tala nú ekki um í þeim löndum þar sem íslensk starfsemi hefur verið hvað mest áberandi.