Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 03. júlí 2009, kl. 13:10:59 (2607)


137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Þessi ríkisstjórn hefur hingað til dregið fram öll jákvæðu skjölin í þessu máli, litið fram hjá neikvæðu skjölunum. Fyrst kemur hæstv. fjármálaráðherra upp og segir að ekkert mark sé takandi á matsfyrirtækjum. Ég gagnrýni það og bendi honum á að matsfyrirtækin hafi verið með neikvætt mat á íslenska ríkinu og hann segir að það sé rugl og bull. Svo kemur hann sjálfur með tvö yfirstrikuð möt sem sýna jákvæða stöðu þjóðarbúsins. Þetta er náttúrlega málflutningur sem ekki er hægt að láta bjóða sér, að taka bara skjölin og gögnin sem eru jákvæð fyrir Icesave-málið, enda kom fram í umræðunni í gær að hæstv. fjármálaráðherra viðurkenndi að ákveðnir aðilar innan ráðuneytisins hefðu sorterað í þessar möppur sem liggja fyrir þingmönnum til að lesa og kynna sér málið. Það er svolítið skrýtið að umræðunni skuli vera beint í þessa átt, í eina átt, enda ber þetta allan keim af því að sannfæra þingmenn um að Icesave-málið sé gott eins og maður sér þegar frumvarpið er lesið.

Þar sem hæstv. fjármálaráðherra rifjar upp sína fyrri þingmannstíð og hvað hann hafi barist á móti þessu sem óbreyttur þingmaður langar mig til að spyrja hann nokkurs. Ég veit að hann getur ekki svarað hér og nú, hann getur þá bara svarað því annars staðar. Hvað breyttist í kollinum á ráðherranum? Hér stóð hann og varaði við eins og við framsóknarmenn erum að gera. Hér stóð hann ræðu eftir ræðu og talaði um að hér væri allt saman að fara til fjandans og þá hét það jákvæð neikvæðni af því að hæstv. fjármálaráðherra talaði þannig sjálfur þegar hann var óbreyttur þingmaður. Ég er farin að halda að þetta sé dýrasti ráðherrastóll sem við Íslendingar höfum þurft að borga fyrir. Um leið og hann er orðinn aðili að þessari ríkisstjórn er veröldin breytt og hér á allt að vera í fínu lagi og hann er farinn að tala á móti sannfæringu sinni í máli eftir mál og þá sérstaklega í Icesave-málinu sem hann fór gjörsamlega (Forseti hringir.) á límingunum yfir þegar hann var óbreyttur þingmaður. (Gripið fram í.)