Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 03. júlí 2009, kl. 13:53:52 (2626)


137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:53]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Við höfum heyrt að hæstv. ráðherrar gefa það í skyn, og þá sérstaklega gagnvart eigin liðsmönnum, að samþykki þeir ekki þennan samning sé veruleg hætta á því að þessi ríkisstjórn sé fyrir bí. Nú kom hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, fram í fjölmiðlum nú fyrir nokkrum dögum og lýsti því fyrir hönd okkar framsóknarmanna að verði þessi samningur felldur á þingi munum við vinna með ríkisstjórninni að því að leita nýrra samninga. Því er alveg tómt mál um að tala fyrir hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni að halda því fram að ríkisstjórnin sé í einhverri sérstakri hættu í þessu máli. Það væri mikið fagnaðarefni ef við gætum náð samstöðu um það á vettvangi Alþingis að breyta þessu máli og lagfæra það og ganga sameinuð til nýrra viðræðna því það eru miklir hagsmunir sem þessar þjóðir, Hollendingar og Bretar og í raun öll Evrópa, hafa af því að við lendum þessu máli í einhverju samkomulagi, gríðarlegir hagsmunir eins og við höfum bent hér á. Samningsstaða okkar er að því leytinu til nokkuð sterk og svo ég ljúki ræðu minni á því þá furða ég mig á því að við skulum vera að ræða þetta mál sem búið er að skrifa undir og Alþingi á eftir að staðfesta án þess að hæstv. ríkisstjórn hafi áður en skrifað var undir verið búin að láta fara fram eitthvert mat á því hver greiðslugeta þjóðarinnar verður til framtíðar litið og án þess að margir ráðherrar í ríkisstjórninni hafi kynnt sér þetta í hörgul. Hér hefði þurft að standa allt öðruvísi að málum. Hér hefði ríkisstjórnin líka átt að leita til stjórnarandstöðunnar áður en gengið var frá þessu máli. En þetta sýnir í raun þau gamaldags vinnubrögð sem hæstv. ráðherrar Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon viðhafa enn enda eru þau vön þeim vinnubrögðum á þeim áratugum sem þau hafa gegnt störfum á vettvangi Alþingis.