Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 03. júlí 2009, kl. 14:12:57 (2634)


137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:12]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðu um þetta stóra mál. Hann er mikið skammaður hæstv. fjármálaráðherra og ætla ég að vísu ekki að byrja á því — synd að hann skyldi hlaupa úr salnum um leið og ég fór í ræðustól — heldur frekar þó hrósa hæstv. fjármálaráðherra fyrir að taka umræðuna. Ég held að það hljóti að vera einhvers konar einsdæmi, ekki bara á Íslandi heldur í þeim löndum sem við berum okkur saman við, að í jafnstóru máli og hér er á ferðinni hafi hæstv. forsætisráðherra ekki sett sig á mælendaskrá. Hér verið að tala um mál sem er svo stórt að það verður ávallt fjallað um þetta mál í íslenskri sögu í framtíðinni. Það verður alltaf minnst á þetta mál, sama hvernig það fer. Forsætisráðherra þjóðarinnar hefur ekki séð ástæðu til þess að halda hér ræðu. Forsætisráðherra þjóðarinnar var nú á öðrum degi umræðunnar að fara í andsvar sem er auðvitað virðingarvert. En þetta er, virðulegi forseti, örugglega einsdæmi.

Það virðist vera þannig að Samfylkingin sé búin að ákveða að þetta sé nú ekki vinsælt mál og þar af leiðandi er Samfylkingin ekki á svæðinu. Það er tvennt sem einkennir þann flokk, Samfylkinguna. Sá flokkur á tvo guði. Það er ESB og það er Capacent Gallup. Allar gerðir þess flokks, allar flokkssamþykktir miðast annaðhvort við að koma Íslandi til fyrirheitna ríkjabandalagsins og þar er öllu fórnað eða að gera eitthvað sem verður hugsanlega til þess að komast þokkalega frá viðhorfskönnunum eða næstu skoðanakönnun. Virðulegi forseti. Ég tala af reynslu. Ég þekki störf þessa flokks mjög vel.

Það er samt sem áður þannig að hér hafa, virðulegi forseti, ráðherrar í ríkisstjórninni vegið mjög hart að Samfylkingunni án þess að nefna þann flokk á nafn. Ég held að sá ráðherra sem hafi gengið lengst hafi verið hæstv. viðskiptaráðherra sem ég er ánægður með að sé í salnum vegna þess að ég mun gagnrýna hann mjög harðlega og hann hefur þá tækifæri til að svara fyrir sig. Það verður að segjast eins og er að þegar ég hlustaði á hæstv. viðskiptaráðherra í gær þá hugsaði ég: Í hvaða liði er þessi maður? Í hvaða liði er þessi maður? Er þetta maður sem á að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar í þessu langerfiðasta deilumáli sem við höfum lent í í íslenskri samtímasögu. Þessi maður kom hér upp, hæstv. viðskiptaráðherra, og sagði: „Við berum alla ábyrgð. Þetta var allt Íslendingum að kenna, allt.“ Er það skrýtið, virðulegur forseti, að við sitjum uppi samning sem þennan þegar þessir aðilar gæta okkar hagsmuna? Einhver hefði getað komist að þeirri niðurstöðu að sú tilskipun sem við þurftum að taka upp frá ESB væri svo meingölluð að þar væri hugsanlega einhver ábyrgð. Nei, ekki hæstv. viðskiptaráðherra. Það er væntanlega okkur að kenna líka. Ég veit ekki hvaða Íslendingur skrifaði hana. Ég veit ekki hvaða Íslendingur samþykkti það á vettvangi Evrópusambandsins. Kannski hæstv. viðskiptaráðherra upplýsi okkur um það (Gripið fram í: Er Landsbankinn ...) því þetta var allt okkur að kenna. (Gripið fram í: Er Landsbankinn þá kannski saklaus bara?) Virðulegi forseti. Nú fór eitthvað um hæstv. fjármálaráðherra. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Þetta er athyglisverð ræða.) Hæstv. fjármálaráðherra hefur tækifæri til — ég vek athygli á því að hann hefur farið hér mikinn og beðið um frið til að vera í ræðustól og sagt hinum ýmsu þingmönnum að það komi að þeim seinna. Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til að fara í andsvar ef hann hefur einhverjar athugasemdir við ræðu mína. Það verður mér mikil gleði og ánægja að svara hæstv. fjármálaráðherra.

Við erum í þessari stöðu, virðulegi forseti, og það er alveg sama hvernig við lítum á þetta mál. Sleppum bara Íslandi, sleppum Icesave. En það er algerlega ljóst að þessi tilskipun er meingölluð. Hún var samþykkt fyrir nokkuð mörgum árum síðan, ekkert ýkjamörgum, kannski tveimur áratugum eitthvað slíkt. En mikið hefur breyst á þeim tíma. Sömuleiðis hefði mönnum kannski átt að vera ljóst að ef þeir eru að hugsa um tilskipun fyrir sameiginlegan markað og innstæðutryggingar fyrir þá aðila sem þar eru, alveg sama í hvaða landi þeir eru, þá hefði verið mun skynsamlegra að hafa þá einn sjóð yfir allt svæðið. Þess í stað er hvert land með sjóð og það er algerlega ljóst miðað við þær fjárhæðir sem eru greiddar inn í þennan sjóð að það er ekki gert ráð fyrir bankahruni og hefur það komið fram á vettvangi Evrópusambandsins. Það er ekki gert ráð fyrir því.

Það sem gerist, virðulegi forseti, er að þegar þessi staða kom upp sem ég ætla ekki að rifja hér upp þá verða þær þjóðir sem við alla jafnan lítum á sem okkar vinaþjóðir, þ.e. þá segja þær sem svo að hér sé gríðarleg hætta á ferð ef einhver veikleiki kemur inn í þetta kerfi vegna þess að það muni þýða að innstæðueigendur í öllum bönkum á Evrópska efnahagssvæðinu, jafnvel víðar, muni taka inneignir sínar út og þar af leiðandi muni bankakerfið hrynja. Það var málflutningur þessara aðila. Þeir vita það og það vita allir að ekki var gert ráð fyrir þessum aðstæðum, að þetta kerfi mundi halda uppi heilu bankahruni.

Virðulegi forseti. Það sem hefur verið lítið í umræðunni hér er að við erum að skuldbinda okkur til að gera fleiri hluti. Þessi samningur gerir ráð fyrir því að til að hafa upp í þessar innstæðutryggingar, þ.e. 20 þúsund evrurnar á hvern reikning, að við erum í rauninni ekki bara að taka á því heldur er gert ráð fyrir því að þær eignir sem menn eru að véla um hér, þ.e. að 52% af þeim fari í að borga upp sérstakar ákvarðanir breskra og hollenskra stjórnvalda. Mér hefur fundist fara lítið fyrir þeirri umræðu hér inni og ekki mikið um það í greinargerð með frumvarpinu. En ég tel væntanlega að menn muni fara betur yfir það á vettvangi nefndarinnar.

Hæstv. viðskiptaráðherra talaði um að þetta hefði allt saman verið íslenskt og nefndi meðal annars að íslenskt eftirlit hefði brugðist og ég er ekkert frá því að það hafi gerst. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson benti á að Icesave skuldbindingarnar eða eignirnar í þeim sjóðum hefðu verið í tíð Samfylkingarinnar í bankamálaráðuneytinu. Ég held að menn komist þá ekkert hjá því að líta svo á að hæstv. viðskiptaráðherra hafi verið að gagnrýna fyrirrennara sinn mjög hressilega í þessari ræðu og gengið alveg gríðarlega langt í því.

Við sitjum uppi með það núna, virðulegi forseti, að búið er að skrifa undir þennan samning. Ég lít svo á að okkar verkefni sé að vinna úr þeirri stöðu eins vel og hægt er. Það er mjög snúið. Það verður að segjast að sú gagnrýni sem hér hefur komið fram á vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru mjög réttmæt. Ég ætla ekki að fara yfir orð og ummæli hæstv. fjármálaráðherra hvort sem þau féllu áður en hæstv. fjármálaráðherra varð hæstv. fjármálaráðherra eða fara yfir það sem hæstv. ráðherra sagði fyrir kosningar. Hér kom félagi hans í ríkisstjórnarflokkunum og benti sérstaklega á hæstv. fjármálaráðherra og hrósaði honum í hástert fyrir öll sinnaskiptin, hrósaði honum í hástert fyrir að taka allar U-beygjurnar. Það var nokkuð athyglisvert þannig að ég bara vísa í orð hv. þingmanna Samfylkingarinnar um að ekki þurfi að fara yfir U-beygjur hæstv. fjármálaráðherra, þær eru öllum ljósar í nokkurn veginn öllum málum.

En ef við förum aðeins yfir aðdragandann að þessu máli og þessu stóra máli þá liggur það alveg fyrir að hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin núverandi tók málið algjörlega í sínar hendur á sínum forsendum. Það liggur alveg fyrir að með því að gera Svavar Gestsson að formanni samninganefndar þá var það endanlega staðfest ef mönnum var það ekki ljóst. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að á leiðinni væri glæsileg niðurstaða, bakkaði að vísu með það réttilega en sagði svo úr þessum stól sem aldrei hefur fengist skýring á þegar hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson spurði hann um stöðu þessa máls að það væri ekki byrjað. Tveim dögum síðar heyrum við í fréttunum í hæstv. forsætisráðherra að vísu sem kom ansi lukkuleg með þessa góðu niðurstöðu. Okkur þingmönnum var ekki kynnt neitt. Við fengum svo mjög sérkennilega kynningu á þingflokksfundum. Nokkrum klukkutímum síðar er búið að skrifa undir samning. Hér hafa menn verið að þræta fyrir það að það átti að halda samningnum leyndum. Ég sat í þingnefnd. Ég spurði sendinefnd undir forustu aðstoðarmanns hæstv. fjármálaráðherra sem útskýrði fyrir okkur að ekki stæði til að láta þingmenn fá þessi gögn. Hann kom með þá hugmynd að það væri kannski kjörið að láta Ríkisendurskoðun túlka þetta ofan í þingmenn, kannski kjörið að gera það. Það þýðir því ekkert fyrir þessa fulltrúa núna að koma og segja að það hafi aldrei staðið til. Ef svo er þá voru trúnaðarmenn ríkisstjórnarinnar, væntanlega þá bara af einhverjum stráksskap á sérkennilegri stundu, að skrökva að þingmönnum í þingnefnd.

(Forseti (ÁI): Forseti biður hv. þingmann að gæta hófs í orðræðu um fjarstadda menn sem ekki eiga sæti í þessum sal.)

Virðulegi forseti. Það eru komnir ýmsir nýir fletir á fundarstjórn forseta. Ég bara vona að virðulegi forseti gæti jafnræðis og samræmis þegar virðulegur forseti situr þarna uppi. En við fáum að sjá það núna í þessari taugaveiklun ríkisstjórnarinnar að virðulegir forsetar eru að fara að beita að því er virðist einungis athugasemdum gagnvart stjórnarandstöðunni. En við skulum vona að það muni nú róast og lagast þegar fram líða stundir.

Hvað sem því líður, virðulegi forseti, þá held ég að í þeirri erfiðu og snúnu stöðu sem við erum í þá séu sterkustu vopn okkar Íslendinga — og ég tek það fram að það er lykilatriði fyrir okkur að vinna saman í þessu og líta svo á, eins og það er, að þetta eru hagsmunir okkar Íslendinga. Þessum orðum beini ég sérstaklega til hæstv. viðskiptaráðherra — það sterkasta sem við höfum í þessu eru hin sameiginlegu viðmið sem samningsaðilar sættust á áður en sest var niður. Tvær greinar, tvö atriði eru sérstaklega sterk í því, þ.e. annars vegar að vísa til þess að það er verið að gæta efnahagslegra hagsmuna okkar Íslendinga við þessar krefjandi og einstöku aðstæður. Það er annars vegar það og síðan er hitt að það er verið að vísa til þess að stofnanir Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins geti verið milligönguaðili í þessu erfiða deilumáli. Þarna, í þessu, lít ég svo á að við Íslendingar höfum náð árangri í þessari þröngu stöðu varðandi sameiginlegu viðmiðin. Þetta er það sem við eigum að leggja til grundvallar þegar við skoðum þennan samning. Er það svo, virðulegi forseti, að hér séum við að gera samning sem gerir okkur kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi okkar. Hér hafa komið mjög sterk málefnaleg rök fyrir því að svo sé ekki. En mótaðilar okkar hafa samþykkt að það verði gert. Á rökum munum við vinna þetta mál og þarna erum við með okkar sterkustu rök.