Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 03. júlí 2009, kl. 14:34:05 (2638)


137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki um hvaða hv. þingmenn hæstv. ráðherra er að ræða. En ástandið er miklu alvarlegra heldur en ég ætlaði. Hæstv. viðskiptaráðherra segir að það sé mjög gallað, fjármálakerfi heimsins, sem öllum er ljóst, en þessi tilskipun, það má nú deila um það hvort hún sé eitthvað gölluð, hún náði alveg fram markmiðum sínum, það má svona deila um það. Með öðrum orðum, við erum að horfa upp á það að fjármálakerfi heimsins sem allir vita var meingallað, við erum að taka skellinn eins og svo margir aðrir en hæstv. viðskiptaráðherra finnst það bara sjálfsagt að við ein gerum það. Honum finnst það bara sjálfsagt og er ekki alveg viss um það hvort það var nú eitthvað að þessari tilskipun sem gerði það að verkum að bankar í einkaeigu gátu sett upp reikninga víðs vegar um álfuna með ábyrgð íslenskra skattgreiðenda. (Forseti hringir.) Það er sú túlkun sem liggur fyrir. Og hæstv. viðskiptaráðherra er ekki alveg viss um hvort þetta sé gölluð tilskipun.