Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 03. júlí 2009, kl. 14:35:24 (2639)


137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir afar athyglisverða ræðu. Sérstaklega vil ég taka undir orð hans er snúa að hæstv. forsætisráðherra og það hversu þögul hún er í þessum umræðum. Raunverulega talar hún ekki nema hún sé til þess neydd og í raun dýrkuð upp í ræðustólinn. Þetta er mjög einkennilegt að hæstv. forsætisráðherra skuli haga sér með þessum hætti þar sem raunverulega fullveldi þjóðarinnar liggur undir í þessu máli.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson úr því að hann kom hér upp og ræddi þetta mál: Hver er ástæðan fyrir því að hæstv. forsætisráðherra blandar sér ekki meira í umræðuna en orðið er? Hvers vegna hefur þessi ríkisstjórn sem nú situr valið hæstv. fjármálaráðherra til að fara út með ruslið fyrir sig? Liggur þarna eitthvað að baki eða hefur Samfylkingin eitthvað að fela í þessu máli? (Gripið fram í: Hvers á Guðlaugur Þór að gjalda að svara fyrir ...?)