Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 03. júlí 2009, kl. 14:51:09 (2646)


137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:51]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við stöndum frammi fyrir einu stærsta og alvarlegasta máli sem við sem þjóð höfum staðið frammi fyrir á öðru tímabili íslensks lýðveldis. Á fyrsta tímabili hins íslenska lýðveldis, á þjóðveldistímanum, stóðu menn oft frammi fyrir stórum málum, jafnvel stærri, og leystu þau. Engu að síður töpuðum við sjálfstæði okkar í margar aldir og það getur auðvitað gerst aftur.

Þrátt fyrir alla pólitík, ágreining um undirbúning, aðdraganda, upphaf máls og ekki síst um samninginn sjálfan snýst Icesave fyrst og fremst um tvennt, annars vegar réttlæti og hins vegar greiðslubyrði og gjaldþol íslensku þjóðarinnar. Það eru þessir þættir sem við ættum að skoða við 1. umr.

Frú forseti. Réttlætiskrafan snýr annars vegar að þeim sem sannarlega áttu mestan þátt í að koma okkur sem þjóð svona illa. Þar má engan undanskilja, rannsaka verður alla þætti, aðkomu stjórnvalda og eftirlitsaðila en ekki síst rannsaka gerðir þeirra sem ákvarðanirnar tóku. Ef þar kemur eitthvað misjafnt fram verður að vísa öllum slíkum málum til sérstaks saksóknara og enda mál fyrir dómstólum. Í því sambandi fagna ég því frumvarpi sem hæstv. dómsmálaráðherra lagði hér fram fyrr í dag. Það verður ekki friður í hjörtum okkar Íslendinga fyrr en réttlætið hefur gengið fram í þessum málum.

Hin réttlætiskrafan og ekki síðri snýr að lögmæti þess hvort við eigum að greiða þessa skuld. Það er óásættanlegt að aldrei hafi verið látið á það reyna með raunverulegum hætti hvort lagalega leiðin, dómstólaleiðin hafi verið fær. Evrópsk tilskipun er gölluð, það veit franski seðlabankinn og er hann því þess vegna með ákvæði þess efnis að við bankahrun gildi ekki þessi tiltekna tilskipun. Íslenskir sem erlendir lagasérfræðingar hafa lýst því sama yfir. Í huga mínum er augljóst að það er ekki réttlæti að við, þessi rúmlega 300 þúsund manna þjóð, eigum ein að standa undir þessum evrópska galla.

Varðandi greiðslubyrði og gjaldþol þjóðarinnar hefur sífellt sigið á ógæfuhliðina því meira sem við heyrum, því meira sem við spyrjum, því meira sem við fréttum af þessu máli. Í haust og í vetur áætlaði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að skuldir þjóðarbúsins væru allt að 160% af landsframleiðslu, þær mættu ekki aukast og væru reyndar á mörkum þess sem land og þjóð gætu staðið undir, þ.e. að það gæti staðið undir skuldbindingum sínum.

Á áhugaverðum fundi sem við framsóknarmenn áttum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í gær kom fram og hefur reyndar komið fram í fréttum að í reynd væru skuldirnar miklu meiri en 160% af landsframleiðslu en þó eitthvað lægri en 250–300%, svo notuð séu orð landstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi. Ef það er ekki forsendubrestur að skuldir þjóðarinnar hafi hækkað úr áætluðum 160% í eitthvað lægra en 250–300%, þótt ekki sé það gefið upp nákvæmlega, veit ég ekki hvað forsendubrestur er. Við það bætist að á engum tíma, hvort sem er við samningsgerðina eða við undirbúning hennar hjá þessari ríkisstjórn eða þeirri sem undirbjó málið í haust, voru þær ríkisstjórnir reiðubúnar að leggja fram greiðsluáætlun um getu þjóðarbúsins næstu 15 árin. Við vitum sem sagt ekki enn hvert greiðsluþolið er. Um það hefur margt verið sagt í umræðunni, frú forseti, og litlu kannski við það að bæta þó að umræðan sé hvergi tæmd og allur sannleikurinn alls ekki kominn fram.

Niðurstaðan og sannleikurinn eru sá að óvissan er allt of mikil. Réttlætiskennd okkar er misboðið. Við sem eigum að taka ákvörðun um hvort við eigum að skuldbinda þjóðina í nútíð og um verulega langa framtíð verðum að hafa betri framtíðarsýn. Samningurinn er ekki aðgengilegur eins og hann lítur út nú. Erfiðleikar þjóðarinnar eru miklir, það hefur margoft komið fram í umræðunni. Erfiðleikar eru hins vegar til að sigrast á þeim. Það verðum við að gera saman, öll þjóðin og allir þingmenn hér inni. Þessi samningur er ekki studdur af þjóðinni vegna þess að hann er óréttlátur og óvissan um greiðsluþol og greiðslugetu er of mikil. Því skora ég á þingheim allan að setjast yfir málið að nýju og skoða hvernig við komumst út úr þessum vanda. Það getur vel verið að réttast sé, eins og gert hefur verið áður, að viðurkenna einhverja pólitíska ábyrgð samhliða því að halda til haga lagalegum rétti okkar.

Einnig verðum við að gera okkur grein fyrir því hvert greiðsluþol okkar er, hvað við getum greitt. Síðan verðum við að semja að nýju vegna þess forsendubrests sem kominn er fram. Þannig náum við vopnum okkar nýju, þannig náum við allri þjóðinni með í réttlátari og sanngjarnari vegferð út úr Icesave-klúðrinu.