Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 03. júlí 2009, kl. 15:03:31 (2650)


137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:03]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki tekið undir það að þjóðin beri ábyrgð á þessum ósóma öllum þó svo að búið sé að koma henni í vandræði. Það getur vel verið að hv. þingmaður og Samfylkingin telji að þjóðin eigi að lúta í duftið og vera á næstu áratugum í skuldafangelsi vegna skulda þessara óreiðumanna, (Gripið fram í.) eins og hv. þingmaður kom hér inn á, ég get ekki samþykkt það.

Svo vil ég leiðrétta hv. þingmann hvað varðar þær byrðar sem annars vegar eru lagðar á Hollendinga og Breta í gegnum innlánsreikninga og tryggingarsjóð, það er ekki gert með sama hætti og við erum að gera. Við erum að tryggja 20 þúsund evrurnar en þeir eru að standa við skuldbindingar sem eru þar langt fyrir ofan. Það eru í raun og veru innlánsreikningar og tryggingarsjóðirnir þeirra sem standa undir því en ekki ríkissjóður okkar, (Gripið fram í.) sem er talsvert annað mál enda eru íslenskir bankar í samhengi allra evrópskra banka eins og smámál. En þegar bankar á Íslandi fara allir er það bankahrun og þar með gildir ekki evrópska tilskipunin eins og oft hefur verið komið inn á.

Ég verð að viðurkenna að ég undrast þetta og finnst sú orðræða leiðinleg og lítilmannleg hjá hv. þingmanni og Samfylkingunni í ljósi þess að það er gríðarleg óvissa um gjaldþol og greiðslubyrði og hvort við getum staðið undir þessu. Það er líka óvissa um hvort það sé lagaleg skylda okkar að standa undir þessu. Þá finnst mér það með ólíkindum að við eigum ekki að fara vel yfir það hvort við eigum virkilega að binda á þjóðina skuldabyrði og þurfa að taka lán eftir lán til að endurfjármagna Icesave-skuldir sem orðið hafa til, (Forseti hringir.) ekki vegna okkar heldur vegna óreiðumanna (Forseti hringir.) sem við eigum ekki að bera ábyrgð á.