Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 10. júlí 2009, kl. 13:41:43 (2901)


137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:41]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við höfum tekið góða og gagnlega umræðu um þetta í nefndinni og þessu er ágætlega lýst í nefndarálitinu sjálfu. Það sem eftir situr er hins vegar þetta: Þegar umboðið hefur verið veitt og viðræðunefndin sett af stað þá er það hún sem fer með valdið. Þingið mun ekki geta stöðvað það ferli með neinum hætti hér, með umræðu í þingsal eða einhverjum ályktunum hér. Við munum hins vegar sem þingmenn og í utanríkismálanefnd geta fylgst með ferlinu, lýst skoðunum við nefndina á því hvort hún sé á réttri leið eða ekki. En þingið mun ekki, eftir að lagt hefur verið af stað, geta sett nein skilyrði fyrir því að viðræðunum verði haldið áfram. Það er mjög mikilvægt að menn átti sig á þessu.

Það sem síðan skortir algerlega í málið í heild sinni eins og lagt er af stað með það er að þeir sem standa að nefndarálitinu lýsi því fyrir fram fyrir sitt leyti hvert mikilvægi einstakra atriða sé. Það er öllu skotið nefnilega inn í framtíðina í þessu máli. Það er ekki tekið á hinum pólitísku álitaefnum sem hafa verið grundvöllur fyrir ólíkri afstöðu flokkanna til Evrópusambandsaðilar bæði milli (Forseti hringir.) stjórnarandstöðuflokkanna og Samfylkingarinnar og jafnvel milli þeirra (Forseti hringir.) innbyrðis.