Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 10. júlí 2009, kl. 14:45:04 (2912)


137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir ágæta og málefnalega ræðu og þakka honum jafnframt vinsamleg orð í minn garð. Ræða hans var yfirgripsmikil og tók á mörgum þáttum og ekki síst þeim sem urðu þess valdandi að ekki náðist full samstaða á vettvangi utanríkismálanefndar. Það var svona helst þegar hann var kominn út í hernaðarlistina og jarðsprengjusvæðin sem hann var kominn á annað flug.

Ég vil bara ítreka það, vegna þeirra orða hans að ekki hefði verið vilji til að ná samstöðu og ekkert staðist af því sem lofað var, að ég tel að á vettvangi nefndarinnar hafi mjög margt verið gert og unnið til þess að ná breiðri samstöðu í málið. Ég álít og hef ekki fengið tilefni til þess að ætla annað, ekki heldur af ræðu þingmannsins, að það sé sæmileg samstaða um þá grundvallarhagsmuni sem við Íslendingar eigum að leggja ef við förum í (Forseti hringir.) aðildarviðræður við Evrópusambandið, jafnvel þótt ekki sé samstaða um leiðina alveg til enda og hinar formlegu hliðar málsins. (Gripið fram í: Hvað ætlarðu að segja um ...)